Handbolti

Elín Klara kemur til greina sem besti ungi leik­maðurinn á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar einu af átján mörkum sínum á heimsmeistaramótinu.
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar einu af átján mörkum sínum á heimsmeistaramótinu. Getty/Marco Wolf

Íslenski leikstjórnandinn Elín Klara Þorkelsdóttir er ein af tólf leikmönnum sem hafa verið tilefndir til verðlaunanna „Besti ungi leikmaðurinn á HM í handbolta 2025.“

Alþjóðahandboltasambandið greinir frá þessu á miðlum sínum en þessi verðlaun eru ætluð bestu keppendum undir 21 árs aldri og beina kastljósinu að ungum afburðaleikmönnum.

Að lokinni forkeppni mótsins hafa sérfræðingar í þjálfara- og aðferðanefnd IHF valið tólf leikmenn sem koma til greina til verðlaunanna. Sigurvegarinn verður valinn í úrvalslið heimsmeistaramóts kvenna í handbolta 2025.

Elín Klara hlaut náð fyrir augum dómnefndarinnar en Hafnfirðingurinn kraftmikli er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og öðru stórmóti. Hún missti grátlega af síðasta heimsmeistaramóti en hefur verið í risastóru hlutverki hjá íslenska liðinu á þessu móti.

„Þessi 21 árs gamli miðjumaður hefur leikið með öllum yngri landsliðum þjóðar sinnar og keppt á mörgum heimsmeistaramótum unglinga og yngri flokka hjá IHF. Hún lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2022 og tók þátt í heimsmeistaramóti kvenna 2023, sem veitti henni dýrmæta alþjóðlega reynslu fyrir mótið í Þýskalandi/Hollandi 2025,“ segir í umfjöllun um val hennar en það er þó alveg rétt því Elín Klara missti af HM 2023 vegna meiðsla.

Hún spilaði aftur á móti á EM í fyrra og fékk þá mjög dýrmæta reynslu sem nýtist henni á þessu móti.

„Þessi lágvaxni miðjumaður, sem er aðeins 1,69 m á hæð, hefur skorað 12 mörk í forkeppninni og verið burðarásinn í sóknarleik íslenska liðsins,“ segir um Elínu á heimasíðu IHF.

Elín Klara er með átján mörk og 56 prósent skotnýtingu í fyrstu fimm leikjum íslenska liðsins sem gera 3,6 mörk að meðaltali í leik. Hún hefur gefið fjórar stoðsendingar og þar með komið með beinum hætti að 22 mörkum íslenska liðsins.

Danmörk, Spánn, Frakkland, Þýskaland (2 leikmenn), Ungverjaland, Holland, Rúmenía, Svíþjóð og Sviss (2 leikmenn) eiga öll leikmann sem eru á lista með Elínu Klöru en það má lesa meira um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×