Íslenski boltinn

Damir Muminovic til Grinda­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damir Muminovic og Hjörvar Daði Arnarson voru kynntir í kvöld sem nýir leikmenn Grindavíkur.
Damir Muminovic og Hjörvar Daði Arnarson voru kynntir í kvöld sem nýir leikmenn Grindavíkur.

Damir Muminovic spilar ekki í Bestu deildinni í fótbolta næsta sumar en hann hefur samið við Lengjudeildarlið Grindavíkur.

Knattspyrnudeild Grindavíkur tilkynnti í kvöld að félagið hefði samið við tvo leikmenn fyrir komandi tímabil. Þetta eru þeir Damir Muminovic og Hjörvar Daði Arnarson. Þeir hafa báðir skrifað undir tveggja ára samning og verða þeir gulir og bláir næstu tvö tímabil.

Damir Muminovic hefur leikið með Breiðabliki undanfarin ár og Hjörvar Daði kemur til liðsins frá ÍBV.

„Grindavík bindir miklar vonir við þessa tvo öflugu leikmenn og hlakkar til að sjá þá í Grindavíkurtreyjunni næsta sumar,“ segir í frétt á miðlum Grindvíkinga.

Áður hafði komið fram að Damir Muminovic fengi ekki nýjan samning hjá Breiðabliki.

Damir hafði hjálpað Blikum að vinna tvo Íslandsmeistaratitla á síðustu árum og var lykilmaður í báðum liðum.

Hann verður 36 ára á næsta ári og verður því orðinn 37 ára gamall þegar samningurinn rennur út.

Damir hefur leikið 280 leiki í efstu deild og skorað í þeim 15 mörk. Hann á að baki 36 leiki í B-deildinni en hann lék í henni síðast með Leikni R. árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×