Körfubolti

Valskonur á mikilli siglingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reshawna Stone var í stuði í kvöld.
Reshawna Stone var í stuði í kvöld. Vísir/Anton Brink

Valskonur unnu sinn þriðja leik í röð í Bónus-deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar þær sóttu tvö stig í Garðabæinn.

Valur vann þá sannfærandi tuttugu stiga stórsigur á heimaskonum í Stjörnunni, 88-68, eftir að liðið var komið 29 stigum yfir í hálfleik, 57-28.

Valsliðið er á mikilli siglingu en liðið fór illa með Íslandsmeistara Hauka í leiknum á undan og hefur nú unnið sjö af níu leikjum sínum á leiktíðinni.

Valskonur eru sérstaklega öflugar á útivelli en liðið hefur unnið alla fimm útileiki sína í deildinni í vetur.

Reshawna Stone heldur áfram að hitta vel en hún setti niður fimm af fyrstu sex þriggja stiga skotum sínum og endaði með 27 stig.

Alyssa Marie Cerino skoraði 20 stig og Ásta Júlía Grímsdóttir var með 14 stig og 9 fráköst.

Hin unga Berglind Katla Hlynsdóttir kom með 20 stig inn af bekknum og Shaiquel Mcgruder var með 12 stig. Allt byrjunarlið Stjörnunnar skoraði bara samtals 25 stig í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×