Lífið samstarf

Að lifa er að hlusta á þúsund sögur

Lestrarklefinn
Fyrir vísindin eftir Önnu Rósar Árnadóttur er ljóðabók í óbundnu máli þar sem farið er yfir æviskeið vísindakonu.
Fyrir vísindin eftir Önnu Rósar Árnadóttur er ljóðabók í óbundnu máli þar sem farið er yfir æviskeið vísindakonu.

Sjöfn Asare tekur fyrir bók Önnu Rósar Árnadóttur, Fyrir vísindin, í Lestrarklefanum. Hún hefur þetta að segja um bókina.

Fyrir vísindin er fyrsta útgefna verk skáldsins og bókmenntafræðingsins Önnu Rósar Árnadóttur, sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í fyrra. Sigurljóð hennar, Skeljar, er einmitt að finna í nýútkominni bókinni sem Benedikt gefur út, en í henni segir höfundur sögu ljóðmælanda á næman og fallegan hátt sem lofar góðu um framtíðarferil skáldsins.

Fyrir hvern?

Fyrir vísindin er ljóðabók í óbundnu máli og í henni er farið yfir æviskeið vísindakonu, frá barnæsku og til fullorðinsára. Frásögnin er þó ekki línuleg heldur fremur hringlaga og er saga vísindakonunnar brotin upp í mismunandi kafla, lífsskeið, endurlit, sambönd og sjúkdóma.

Sjöfn Asare skrifar gagnrýni á menningarvefnum Lestrarklefinn

 Frásögnin er meðvitað brotakennd en myndar þó fallega heild, og skilningur lesanda á ljóðmælanda dýpkar og eykst með hverju ljóði. Orðfæri höfundar er fallegt og beinskeytt og hún notar á tíðum vísanir í bókmenntir fyrri tíma í bland við dulrænan heim tilfinninganna til að skapa heildrænt og draumkennt andrúmsloft þar sem orðin leika sér hvert við annað og mynda brú milli manneskja.

Samrunni fræða

Það að ljóðmælandi sé vísindalega þenkjandi er sérlega áhugavert, en oft á tíðum er spennandi að sjá hvernig skáld vefa saman eitthvað jafn ólíkt og ljóðlist og hörð vísindi. Benda á þetta sameiginlega sem finnst í hvoru tveggja, þennan fínlega þráð uppgötvana, staðreynda og túlkunar, og það hvernig sumt fólk er eins og kallað til að stunda ákveðin fræði eða verk.

Kristallast þessi samruni vel í ljóðinu Vísindakonan, en hér má sjá brot:

ég er ekki skyggn

hvíslar hún þar sem hún stendur

fyrir framan titrandi glerskápinn

og talan kemur til hennar

nákvæm

upp á kommu

ég er ekki skyggn

það eru bara þessi loftnet

í mér

(bls. 8)

Umfjöllunina í heild sinni má lesa hér. Fleiri ritdóma er að finna á Lestrarklefinn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.