Sport

Veitinga­staður Usains Bolts í ljósum logum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veitingastaður Usain Bolt í ljósum logum í nótt.
Veitingastaður Usain Bolt í ljósum logum í nótt. @JamaicaGleaner/Getty/Maja Hitij

Vinsæll veitingastaður jamaísku spretthlaupsgoðsagnarinnar Usains Bolt skemmdist illa í bruna í nótt.

Usain Bolt er í hópi bestu íþróttamanna allra tíma en hann vann átta gullverðlaun í spretthlaupum á Ólympíuleikum og bæði 100 og 200 metra hlaupið á þremur leikum í röð frá 2008 til 2016.

Talið er að eldurinn hafi kviknað um klukkan eitt í nótt að staðartíma. Undirbúningsteymi veitingastaðarins uppgötvaði eldinn þegar það kom til vinnu um klukkan 1:45 sama morgun.

Þau höfðu strax samband við slökkviliðið en þegar það kom á staðinn var efri hæð veitingastaðarins alelda. Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist út en gat ekki komið í veg fyrir skemmdir á byggingunni.

Enn er óljóst hvað olli brunanum en enginn slasaðist.

Jamaica Observer segir frá því að þak veitingastaðarins hafi hrunið og að skemmdirnar séu miklar og gætu numið allt að einni milljón dollara, sem jafngildir 128 milljónum íslenskra króna.

Samkvæmt talsmanni slökkviliðsins var eldurinn á efri hæðum þar sem borðsalur, bar, salerni og skrifstofur eru.

Veitingastaðurinn er með íþróttaþema og Bolt opnaði hann árið 2018. Síðan þá hefur hann orðið vinsæll áfangastaður bæði ferðamanna og heimamanna.

Veitingastaðurinn er hluti af verkefninu World Central Kitchen og tók virkan þátt í að elda og dreifa máltíðum til fólks á svæðum sem urðu fyrir barðinu á fellibylnum Melissu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×