Fótbolti

Elías eftir­sóttur á Ís­landi og fall gæti skilað honum heim

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Már Ómarsson skoraði átta mörk fyrir NAC Breda í hollensku úrvalsdeildinni síðasta vetur, áður en hann flutti til Kína í sumar.
Elías Már Ómarsson skoraði átta mörk fyrir NAC Breda í hollensku úrvalsdeildinni síðasta vetur, áður en hann flutti til Kína í sumar. Getty/Marcel van Dorst

Líklegt þykir að sóknarmaðurinn Elías Már Ómarsson snúi heim til Íslands í vetur og ljóst að félög í Bestu deildinni fylgjast grannt með þróun mála hjá þessum þrítuga fótboltamanni.

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Elíasar, segir þó ekkert hægt að segja til um það að sinni hvort að Elías spili í Bestu deildinni næsta sumar.

Elías er í dag leikmaður Meizhou Hakka í kínversku ofurdeildinni, og hefur skorað þrjú mörk og átt tvær stoðsendingar í þrettán leikjum, eftir að hafa skorað átta mörk á síðustu leiktíð í hollensku úrvalsdeildinni.

Gætu fallið á morgun

Hakka rambar hins vegar á barmi falls niður í næstefstu deild og þarf að vinna Beijing Guoan í lokaumferðinni í fyrramálið, og treysta á að næsta lið fyrir ofan (Qingdao Hainiu) tapi sínum leik.

„Fall getur breytt hlutunum,“ segir Ólafur en Elías er með samning við Hakka sem gildir fram í júlí á næsta ári.

Ljóst er að hans gamla félag Keflavík hefur mikinn áhuga á að fá Elías í sínar raðir, sem eflaust hefði mikil áhrif á nýliðana, og að flest af toppliðunum í deildinni renna einnig hýru auga til hans.

Áratugur í atvinnumennsku

Elías, sem á að baki 9 A-landsleiki, hefur víða skorað mörk á löngum atvinnumannaferli eftir að hann kvaddi Keflavík og hélt til Noregs árið 2015. Hann lék með Vålerenga í Noregi, Gautaborg í Svíþjóð og svo Excelsior í Hollandi þar sem hann skoraði átta mörk í efstu deild og svo 34 mörk á tveimur leiktíðum í næstefstu deild Hollands.

Elías fór svo til Nimes í Frakklandi 2021 og skoraði þar sjö mörk í 41 leik í næstefstu deild, áður en hann sneri aftur til Hollands og lék bæði í næstefstu og efstu deild með NAC Breda, þar sem hann skoraði 23 mörk á þremur leiktíðum. Hann hélt svo til Kína síðastliðið sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×