Fótbolti

Barcelona fór á bak við spænska sam­bandið og sendi Yamal í að­gerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal setti Barcelona í fyrsta sætið og missir af næstu landsleikjum Spánar.
Lamine Yamal setti Barcelona í fyrsta sætið og missir af næstu landsleikjum Spánar. Getty/Catherine Steenkeste

Lamine Yamal mun missa af leikjum Spánar í undankeppni HM í fótbolta í þessum landsliðsglugga vegna meiðsla. Spænska knattspyrnusambandið kom samt alveg af fjöllum.

Spánverjar mæta Georgíu og Tyrklandi í þessum glugga. Hinn átján ára gamli Yamal glímir við þrálát nárameiðsli. Hann var valinn í spænska landsliðið í síðustu viku en fór í minni háttar aðgerð í Barcelona á mánudag, án vitundar spænska knattspyrnusambandsins. Þar átti að reyna að laga vandamálið.

RFEF hefur lýst yfir undrun sinni á ákvörðun Barcelona um að láta sambandið ekki vita af stöðunni, en sættir sig við að Yamal þurfi sjö til tíu daga hvíld og hefur því leyft honum að snúa aftur til Barcelona.

„Læknateymi RFEF vill lýsa yfir undrun sinni og áhyggjum eftir að hafa frétt kl. 13:47 mánudaginn 10. nóvember, á þeim degi sem æfingabúðir landsliðsins hófust formlega, að Yamal hefði gengist undir ífarandi hátíðnimeðferð vegna óþæginda í nára sama morgun,“ segir í yfirlýsingu frá sambandinu.

„Þessi aðgerð var framkvæmd án þess að tilkynna læknateymi landsliðsins fyrir fram, sem frétti aðeins af smáatriðunum í gegnum skýrslu sem barst kl. 22:40 á mánudagskvöld, þar sem mælt var með 7–10 daga hvíld.

Í ljósi þessara aðstæðna, og með heilsu, öryggi og velferð leikmannsins ávallt í forgangi, hefur RFEF tekið þá ákvörðun að leysa leikmanninn undan skyldum í núverandi landsliðshópi.“

Luis de la Fuente, landsliðsþjálfari Spánar, lýsti síðar yfir undrun sinni á því hvernig Barça hefur meðhöndlað málið.

„Það eru ferlar sem eiga sér stað utan RFEF, þannig er það bara, svona er þetta og við verðum að sætta okkur við það,“ sagði De la Fuente við RNE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×