Fótbolti

Glódís leiðir Bayern á­fram í hárrétta átt

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og Barbara Dunst glaðbeittar í leik með Bayern.
Glódís Perla Viggósdóttir og Barbara Dunst glaðbeittar í leik með Bayern. Getty/Alexander Hassenstein

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði annan leikinn í röð allar 90 mínúturnar í vörn Bayern München, þegar liðið hélt hreinu í öruggum 4-0 sigri á Union Berlín, í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld.

Álaginu á Glódísi, sem er fyrirliði Bayern líkt og íslenska landsliðsins, hefur verið stýrt í haust til að hún gæti jafnað sig af meiðslum. Það gefur góð fyrirheit að hún sé nú á ný farin að spila leik eftir leik frá upphafi til enda.

Það virðist einnig hafa góð áhrif á Bayern-liðið sem unnið hefur tvo síðustu leiki með markatölunni 10-0.

Linda Dallmann, Pernille Harder og Giulia Gwinn komu Bayern í 3-0 á fyrstu 25 mínútunum í kvöld og fjórða markið var svo sjálfsmark Tomke Schneider snemma í seinni hálfleik.

Bayern hefur unnið níu af tíu leikjum sínum í þýsku deildinni, og gert eitt jafntefli, og er liðið nú með sex stiga forskot á Wolfsburg á toppnum. Wolfsburg á þó leik til góða á morgun við Frankfurt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×