Íslenski boltinn

Leiðir Breiðabliks og Damir skilja

Aron Guðmundsson skrifar
Damir Muminovic mun ekki klæðast treyju Breiðabliks á næsta tímabili 
Damir Muminovic mun ekki klæðast treyju Breiðabliks á næsta tímabili  vísir / ernir

Damir Muminovic er á förum frá Breiðabliki eftir að núverandi samningur hans rennur sitt skeið í lok þessa árs. Honum verður ekki boðin nýr samningur hjá Blikum.

Þetta staðfestir Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks í samtali við Breiðablik en í morgun kom fram á Fótbolti.net að miðilinn hefði heimildir fyrir því að þetta væri raunin.

„Damir er að renna út á samningi og verður ekki áfram hjá okkur. Það er staðfest og búið að láta hann vita af því,“ segir Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks í samtali við íþróttadeild.

„Það er bara partur af fótboltanum. Damir er búinn að vera frábær fyrir félagið í fjöldamörg ár og nú skilja leiðir og allt í góðu. Þetta er bara sú ákvörðun sem var tekin.“

Eins og fyrr segir rennur samningur Damirs út í lok þessa árs og gæti hann því enn leikið nokkra Evrópuleiki fyrir Breiðablik sem standa í ströngu í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu og eiga til að mynda leik gegn Shakhtar Donetsk á morgun.

Hinn 35 ára gamli Damir á að baki um 370 leiki fyrir Breiðablik og hefur um árabil verið mikilvægur hlekkur af varnarlínu liðsins. Hann hefur í tvígang orðið Íslandsmeistari með liðinu, árið 2022 undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar og 2024 undir stjórn Halldórs Árnasonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×