Innlent

Á­kærður fyrir að skjóta að dróna Fiski­stofu

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var á siglingu um Patreksfjörð þegar hann skaut að drónanum.
Maðurinn var á siglingu um Patreksfjörð þegar hann skaut að drónanum. Vísir/Vilhelm

Skipverju á fiskiskipi hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og vopnalagabrot, með því að hafa skotið þremur skotum að dróna Fiskistofu, sem notaður var við veiðieftirlit, í nóvember í fyrra.

Greint var frá málinu í tilkynningu Fiskistofu, sem sinnir reglubundnu eftirliti á sviði fiskveiðistjórnunar og lax og silungsveiða, þann 26. nóvember í fyrra, daginn eftir atvikið.

„Þegar skipverjar tóku eftir drónanum sveimandi yfir, fór einn þeirra inn í stýrishús skipsins og greip þar til skotvopns og skaut þremur skotum að drónanum frá skipinu. Eftirlitsmaður Fiskistofu kveikti á upptöku eftir að skoti hafði verið hleypt af og náði verknaðinum á myndband,“ sagði í tilkynningunni.

Héraðssaksóknari hefur nú gefið út ákæru á hendur manninum, sem tekin verður fyrir í Héraðsdómi Vestfjarða.

Í ákærunni segir að maðurinn sé ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og brot gegn vopnalögum, með því að hafa haft í vörslum sínum Baikal IJ18 haglabyssu án þess að hafa skotvopnaleyfi og skotið úr henni, þar sem hann hafi verið staddur um borð í fiskiskipinu Agnari BA-125 úti á sjó á Patreksfirði.

Hann hafi skotið í átt að ómönnuðu fjarstýrðu loftfari, eftirlitsdróna, sem starfsmaður Fiskistofu notaði við eftirlit með veiðum skipsins, og þannig ekki gætt fyllstu varúðar og með því leitast við að hindra framkvæmd starfa veiðieftirlitsmannsins.

Brot hans teljist varða ákvæði hegningarlaga um brot gegn valdstjórninni, sem varðar allt að sex ára fangelsi, og vopnalaga, sem varða einnig allt að sex ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×