Handbolti

Björg­vin Páll hafi þaggaði niður í efa­semdarröddum

Aron Guðmundsson skrifar
Reynsluboltinn Björgvin Páll Gústavsson hefur lengi vel staðið vaktina í marki íslenska karlalandsliðsins í handbolta.  
Reynsluboltinn Björgvin Páll Gústavsson hefur lengi vel staðið vaktina í marki íslenska karlalandsliðsins í handbolta.   vísir/Anton

Einar Jóns­son, þjálfari Ís­lands- og bikar­meistara Fram og hand­boltasér­fræðingur segir góða frammistöðu Björg­vins Páls Gústavs­sonar í seinni leiknum gegn Þjóðverjum á dögunum þaggað niður í efa­semdarröddum þess efnis hvort hann ætti að fara með liðinu á EM í janúar.

Einar var ánægður með heildar­myndina sem hann sé frá ís­lenska lands­liðinu í seinni leik liðsins gegn Þýska­landi. Leik sem að lauk með tveggja marka sigri Ís­lands í Munchen fyrir framan troðfulla höll, frammistaða sem var gjörólík og mun betri en sú frammistaða sem liðið bauð upp á í fyrri leiknum sem tapaðist með ellefu mörkum.

Hvað ein­stak­lings­frammistöður varðar voru þó nokkrir leik­menn Ís­lands sem heilluðu Einar. Einn þeirra hefur verið lengi að og virðist alltaf skila sínu, mark­vörðurinn Björg­vin Páll Gústavs­son sem varð fer­tugur fyrr á árinu og stefnir hraðbyri á sitt nítjánda stór­mót á ferlinum.

„Sti­ven spilaði mjög vel og Óðinn Þór var frábær. Þar erum við með leik­mann sem var í basli á síðasta móti. Arnar Freyr var flottur sem og Björg­vin Páll. Ein­hverjir voru að setja spurningar­merki við það hvort Björg­vin Páll ætti í raun og veru að eiga heima í þessum hóp. Mér fannst hann klár­lega sína það í þessum leik að hann verður með okkur í janúar. Þá kom Þor­steinn Leó virki­lega vel inn í þetta. Hann sýndi sig og sannaði.“

Höfuðverkur Snorra ekki brjálæðislega mikill

Vinstri horna­maðurinn reyndi, Bjarki Már Elís­son, var utan hóps í nýaf­stöðnu verk­efni og segir Einar enda­laust hægt að deila um það hvort hinn eða þessi eigi að vera í hópnum á kostnað annarra en að það breyti ekki heildar­myndinni. Hann telur val Snorra á EM hópnum fyrir janúar vera nokkuð klippt og skorið.

„Ég velti því fyrir mér með Bjarka Má hvort hann gæti verið ein­hvers konar leið­togi sem ég talaði um að liðinu skorti en þá kæmi hann inn á kostnað Sti­ven Tobar.“

„Það vantar ein­hvern sem er til í að leiða liðið áfram og ég veit að Bjarki Már er óhræddur við að segja hlutina eins og þeir eru, bæði inni í klefa sem og á liðs­hótelinu. En í mínum augum liggur val Snorra nokkuð ljóst fyrir og engin brjálæðis­legur höfuð­verkur fram­undan fyrir hann.“

Ís­lenska lands­liðið er á meðal þátt­tökuþjóða á Evrópumótinu í hand­bolta í janúar næst­komandi. Mótið verður haldið í Dan­mörku, Noregi og Svíþjóð og mun Ís­land spila leiki sína í riðla­keppninni í Kristian­stad í Svíþjóð. Þar er liðið í F-riðli með Ung­verjum, Pól­verjum og Ítölum. Fyrsti leikur liðsins er gegn Ítalíu þann 16. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×