Handbolti

Valskonur unnu 24 marka sigur og ÍR upp í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsarinn Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í dag með níu mörk úr níu skotum.
Valsarinn Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í dag með níu mörk úr níu skotum. Vísir/Anton Brink

Íslandsmeistarar Vals sýndu styrk sinn í Olís-deild kvenna í handbolta í dag með risasigri á Selfyssingum. ÍR næst á eftir toppliðinu eftir sigur á Haukum.

Valskonur unnu 24 marka sigur á Selfossi, 45-21, sem var fimmti deildarsigur liðsins í röð og sá sjötti í fyrstu sjö leikjunum.

Það var ljóst frá upphafi að þetta yrði erfiður dagur fyrir gestina frá Selfossi.

Valsliðið komst í 12-1 og var 24-7 yfir í hálfleik. Að lokum munaði síðan 24 mörkum á liðunum.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir nýtti öll níu skotin sín í leiknum og Elísa Elíasdóttir skoraði átta mörk. Lilja Ágústsdóttir skoraði fimm mörk og þær Lovísa Thompson, Arna Karitas Eiríksdóttir, Thea Imani Sturludóttir voru allar með fjögur mörk.

Hulda Hrönn Bragadóttir skoraði fimm mörk fyrir Selfoss og Mia Kristin Syverud var með fjögur mörk.

Sara Dögg Hjaltadóttir, markahæsti leikmaður Olís-deildar kvenna, skoraði níu mörk þegar ÍR vann fjögurra marka sigur á Haukum, 30-26, í Skógarselinu.

ÍR-konur voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11, en næst á eftir Söru var Matthildur Lilja Jónsdóttir með átta mörk og Anna María Aðalsteinsdóttir skoraði fjögur mörk.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Embla Steindórsdóttir skoruðu báðar sjö mörk fyrir Haukaliðið sem er í fimmta sætinu. Rakel Oddný Guðmundsdóttir skoraði fimm mörk.

Þetta var þriðji sigur ÍR-liðsins í röð og sá fimmti í fyrstu sjö leikjunum sem þýddi að Breiðholtsliðið hoppaði upp í annað sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×