Enski boltinn

Hetja Eng­lands á EM sleit kross­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Táningurinn Agyemang spilar ekki meira á leiktíðinni.
Táningurinn Agyemang spilar ekki meira á leiktíðinni. Catherine Ivill/Getty Images

Michelle Agyemang, framherji enska landsliðsins í fótbolta, sleit krossband í hné í vináttuleik gegn Ástralíu. Agyemang reyndist ein af hetjum Englands þegar liðið fór alla leið á Evrópumótinu síðasta sumar.

Hin 19 ára gamla Agyemang var sannkallaður ofur-varamaður á EM og steig alltaf upp þegar England þurfti á henni að halda. Eftir ævintýrin og sigurinn á EM var hún lánuð til Brighton & Hove Albion frá Arsenal.

Agyemang kom inn af varamannabekk Englands í hálfleik gegn Ástralíu en aðeins 13 mínútum síðar var hún borin af velli eftir að meiðast á hné. Hún staðfesti sjálf á samfélagsmiðlum að um slitið krossband væri að ræða. Það er því ljóst að þessi öflugi leikmaður spilar ekki meira á þessari leiktíð.

„Ég er leið þar sem niðurstaðan er slitið krossband. Ég er þakklát öllum fallegu skilaboðunum og þann stuðning sem ég hef fengið frá ykkur öllum. Endurhæfingin hefst núna og ég kem sterkari til baka,“ skrifaði leikmaðurinn á Instagram-síðu sína.

Brighton, Arsenal og enska knattspyrnusambandið munu öll aðstoða Agyemang í endurhæfingu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×