Íslenski boltinn

Magnús Már í við­ræðum við HK

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni í leik í sumar.
Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni í leik í sumar. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Magnús Már Einarsson, þjálfari fótboltaliðs Aftureldingar, er samningslaus og að skoða næstu skref á þjálfaraferli sínum.

Magnús fundaði með HK-ingum í gærkvöldi samkvæmt heimildum Vísis. Hann er einnig í viðræðum um að halda áfram með Aftureldingu.

HK er að missa þjálfara sinn, Hermann Heiðarsson, sem hefur verið orðaður við Val. Magnús er einn af þeim sem koma til greina sem eftirmaður Hermanns í Kórnum.

Afturelding spilaði í fyrsta sinn í efstu deild í sumar en féll eftir tap á móti Skagamönnum í lokaumferðinni. HK er einnig í Lengjudeildinni en liðið sat eftir í úrslitakeppninni í haust. 

Magnús hafði byggt upp Mosfellsbæjarliðið í mörg ár og kom þeim að lokum upp í Bestu deildina fyrir ári síðan.

Fleiri félög hafa einnig sýnt Magnúsi áhuga og mun hann einnig hafa fundað með forráðamönnum Breiðabliks sem leita að arftaka Nik Chamberlain, fyrir Íslands- og bikarmeistara kvenna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×