Íslenski boltinn

Tölur úr Bestu 2025: Klúðraði lang­flestum dauðafærum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Jónsson fagnar einu af tíu mörkum sínum í sumar en hann hefði auðveldlega getað skorað miklu fleiri mörk.
Viktor Jónsson fagnar einu af tíu mörkum sínum í sumar en hann hefði auðveldlega getað skorað miklu fleiri mörk. Vísir/Anton Brink

Skagamaðurinn Viktor Jónsson var í sérflokki í Bestu deild karla í fótbolta í sumar þegar kemur að því að klúðra dauðafærum.

Opta-tölfræðiþjónustan heldur utan um tölfræði Bestu deildarinnar og tekur meðal annars saman nýtingu á dauðafærum.

Viktor og félagar í Skagaliðinu björguðu sér frá falli úr deildinni með frábærum endaspretti.

Viktor skoraði tíu mörk í 25 leikjum en þau hefðu getað verið svo miklu fleiri ef marka má tölfræði Opta.

Viktor klúraði 23 dauðafærum í sumar eða næstum því einu slíku færi í leik.

Hann var níu dauðafærum á undan næstu mönnum sem voru KR-ingurinn Eiður Gauti Sæbjörnsson og FH-ingurinn Sigurður Bjartur Hallsson með fjórtán klúður hvor. Á eftir þeim kom Valsmaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson með þrettán klúður og Valdimar Þór Ingimarsson með ellefu klúður.

Viktor reyndi alls 75 skot í sumar og þar af fóru 26 þeirra á markið.

Viktor varð í öðru sæti á sama lista árið áður en þá klúðraði hann 22 dauðafærum eða fimm færri en markakóngurinn Benoný Breki Andrésson sem endaði efstur með 27 klúður.

Skagamenn voru í öðru sæti yfir flest klúðruð dauðafæri með 53 en Víkingar voru efstir með 59 klúður og KR-ingar komu síðan í þriðja sætinu með 48 klúður.

Það lið sem klúðraði fæstum dauðafærum var aftur á móti lið Aftureldingar með 21. Vestramenn klúðruðu 26 dauðafærum eins og Blikar.

Víkingar sköpuðu sér alls 101 dauðafæri í sumar eða ellefu meira en næsta lið sem var Valur. Afturelding rak lestina með aðeins 41 skapað dauðafæri.

  • Flest klúðruð dauðafæri í Bestu deild karla 2025:
  • 1. Viktor Jónsson, ÍA 23
  • 2. Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR 14
  • 2. Sigurður Bjartur Hallsson, FH 14
  • 4. Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val 13
  • 5. Valdimar Þór Ingimundarson, Víkingi 11
  • 6. Ómar Björn Stefánsson, ÍA 10
  • 6. Matthias Præst, KR 10
  • 8. Nikolaj Hansen, Víkingi 9
  • 8. Emil Atlason, Stjörnunni 9
  • 8. Ásgeir Sigurgeirsson, KA 9



Fleiri fréttir

Sjá meira


×