Fótbolti

Markaóður Stefán Ingi eftir­sóttur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Ingi er eftirsóttur.
Stefán Ingi er eftirsóttur. Sandefjord

Framherjinn Stefán Ingi Sigurðarson er á óskalista sænska félagsins Djurgården eftir frábæra frammistöðu með Sandefjord í efstu deild Noregs. Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson spilar með Djurgården.

Hinn 24 ára gamli Stefán Ingi gekk í raðir Sandefjord á síðasta ári. Þar áður var hann hjá Patro Eisden í Belgíu en hann er uppalinn hjá Breiðablik. Einnig hefur hann spilað fyrir HK, ÍBV og Augnablik.

Tímabil Sandefjord hefur verið draumi líkast og er það að vissu leyti Stefáni Inga að þakka. Í 22 deildarleikjum á tímabilinu hefur þessi hávaxni framherji nefnilega skorað 13 mörk og gefið eina stoðsendingu.

Þökk sé mörkunum situr liðið í 5. sæti þegar skammt er eftir af mótinu. Aðeins eru þó átta stig niður í 13. sætið en norska deildin er einkar jöfn í ár.

Nú greinir sænski fjölmiðillinn Aftonbladet frá því að Djurgården íhugi að festa kaup á framherjanum. Hann yrði annar Íslendingurinn til að ganga til liðs við félagið á nokkuð stuttum tíma en Mikael var keyptur frá AGF síðasta sumar.

Djurgården er í 5. sæti efstu deildar Svíþjóðar, tveim stigum á eftir Gautaborg í 4. sætinu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×