Erlent

Tveir hand­teknir vegna Louvre ránsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Louvre í París.
Frá Louvre í París. AP/Thibault Camus

Tveir menn hafa verið handteknir vegna ránsins í Louvre um síðustu helgi. Annar þeirra ku hafa verið handtekinn á leið um borð í flugvél til Alsír um klukkan tíu í gærkvöldi og hinn var handtekinn í eða við París skömmu síðar.

Mennirnir voru samkvæmt heimildum Le Parisien, báðir fæddir í Frakklandi og um þrítugt. . Þeir eru einnig sagðir vera góðkunningjar lögreglu og hafa áður verið bendlaðir við innbrot og þjófnað.

Sunnudaginn 19. október brutu fjórir bíræfnir ræningjar sér leið inn á Louvre-safnið og rændu þaðan dýrmætum kórónum og skartgripum frá tíma Napóleóns og franskra konunga og drottninga.

Þýfið sem ræningjarnir komust undan með er metið á rúmar hundrað milljónir dala, sem samsvarar um 12,6 milljörðum króna, samkvæmt frétt BBC.

Lögreglan getur haldið mönnunum í 96 klukkustundir áður en þeir þurfa að vera ákærðir eða þeim sleppt.

Ógnuðu vörðum með verkfærum

Ræningjarnir mættu fyrir utan safnið heimsfræga um klukkan 9:30 að morgni til, skömmu eftir að safnið opnaði, og notuðu stigabíl til að komast að tiltölulega óvörðum glugga á safninu.

Hannbrutu þeir og hlupu inn með verkfæri sem þeir notuðu til að ógna óvopnuðum öryggisvörðum sem flúðu. Mennirnir notuðu verkfærin því næst til að opna sýningarbása og ræna munum.

Á innan við fjórum mínútum voru þeir komnir aftur út og flúðu á vespum sem biðu þeirra.

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Annað safn rænt í Frakklandi um helgina

Nokkrum klukkustundum eftir að bíræfnir ræningjar rændu gífurlega dýrmætum kórónum og skartgripum Louvre-safninu á sunnudaginn létu aðrir þjófar greipar sópa á öðru safni í Frakklandi. Um tvö þúsund gull- og silfurmyntum var stolið af safni sem tileinkað er heimspekingnum Denis Diderot í Landres í Frakklandi.

Myndavélar sneru í ranga átt er gripunum var stolið

Öryggismyndavélar sem vakta áttu svalirnar þar sem skartgripir Napóleons Bonaparte voru til sýnis á Louvre-safninu sneru í ranga átt þegar þjófar létu greipar sópa á sunnudag og hlupu á brott með gripina. 

Komust á brott með átta ómetanlega skartgripi

Búið er að finna tvo skartgripi sem var stolið úr Louvre í París í morgun. Alls voru níu hlutir teknir en þjófanir komust á brott með átta þeirra. Málið er til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×