Enski boltinn

Púllarar í ferðaveseni: „Þetta er engin af­sökun“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arne Slot hefur um margt að hugsa þessa dagana
Arne Slot hefur um margt að hugsa þessa dagana EPA/ERDEM SAHIN

Mikil töf á ferðalagi Liverpool til Frankfurt mun ekki hafa mikil áhrif á liðið samkvæmt þjálfara Púllara, Arne Slot. Liverpool leitast eftir því að komast á sigurbraut eftir fjögurra leikja taphrinu.

Slot neyddist til að aflýsa blaðamannafundi sem átti að fara fram í gær þar sem flug Liverpool-liðsins frá John Lennon-flugvelli til Frankfurt í gær tafðist um fjóra klukkutíma sökum vélarvandræða á flugvél liðsins.

Vélin tók á loft klukkan átta í gærkvöld og rétt náði í tíma á Frankfurt-flugvöll sem lokar yfir nótt.

„Þetta hefur ekki áhrif á undirbúning fyrir leik morgundagsins,“ sagði Slot við LFC TV, miðil enska félagsins, í gær. Liverpool mætir Eintracht Frankfurt í kvöld.

„Við æfðum á æfingavelli okkar. Venjulega hefðum við farið yfir til Frankfurt nokkrum klukkustundum fyrr en við komum aðeins á eftir áætlun. En þetta er engin afsökun fyrir leikinn,“ segir Slot.

Ryan Gravenberch verður ekki með Liverpool í kvöld vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í 2-1 tapi fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Anfield á sunnudag. Um var að ræða fjórða tap Liverpool í röð í öllum keppnum, þar á meðal tapaði liðið fyrir Galatasaray frá Tyrklandi í síðasta leik sínum í Meistaradeildinni.

Búist er við því að Hugo Ekitiké byrji leik kvöldsins á sínum gamla heimavelli en hann var keyptur til Liverpool frá Frankfurt í sumar.

Leikur Eintracht Frankfurt og Liverpool hefst klukkan 19:00 og er sýndur beint á Sýn Sport 2.

Leiknum verður einnig fylgt eftir ásamt öllum öðrum leikjum kvöldsins í Meistaradeildarmessunni á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×