Innlent

Óttast af­leiðingar þess að fjársterkari kaup­endur sitji einir að markaðnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Monika Hjálmtýsdóttir formaður Félags fasteignasala.
Monika Hjálmtýsdóttir formaður Félags fasteignasala. Vísir/Lýður Valberg

Mikil óvissa á húsnæðismarkaði hefur veruleg áhrif á kaupendur sem hafa þegar fengið samþykkt greiðslumat. Fasteignasalar óttast afleiðingar þess að fjársterkir kaupendur sitji einir að markaðnum.

Stjórnendur Íslandsbanka tilkynntu í dag að ákveðið hefði verið að gera hlé á veitingu verðtryggðra húsnæðislána með breytilegum vöxtum til einstaklinga. Fetaði bankinn þar með í spor hinna viðskiptabankanna tveggja auk þriggja lífeyrissjóða sem allir hafa gert hlé á lánveitingunum í kjölfar dóms Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða. Sagði fjármálaráðherra í hádegisfréttum í dag að nú sé til skoðunar hvernig búa megi til viðmið fyrir vexti slíkra lána.

Erfitt að starfa í þessari óvissu

Monika Hjálmtýsdóttir formaður félags fasteignasala segir erfitt að starfa í slíkri óvissu. „Þeir sem eru að fá í dag samþykkt kauptilboð og ætla að fara að sækja um lán í dag, þá er í raun og veru allt stopp, sem er mjög neikvætt.“

Meirihluti lántakenda velji verðtryggð lán vegna núverandi verðbólguástands og staðan nú bitni því á flestum kaupendum. „Og verðtryggðu lánin eru auðvitað mjög mikilvæg á íslenskum fasteignamarkaði, miðað við það umhverfi sem við búum í, þó svo við myndum örugglega flest kjósa það að þau væru ekki til, en ef þau myndu hverfa af markaðnum núna þá yrði stór hluti af kaupendum þarna úti sem hreinlega gætu ekki keypt sér fasteign.“

Núverandi ástand megi ekki vara lengi

Fasteignamarkaðurinn megi ekki við því að núverandi ástand vari lengi, fjársterkari aðilar sitji nú einir að markaðnum. 

„Ég myndi segja að það væri ein til tvær vikur sem þetta mætti alls ekki taka lengri tíma en það þar til þetta færi að hafa veruleg áhrif. Þetta myndi líka bara skapa ákveðinn ójöfnuð út á markaðnum, því meðan þetta ástand varir og það er ákveðinn hópur þarna úti sem getur hreinlega ekki keypt fasteignir þá eru aðrir sem hafa kost á því og standa þá bara einir að því sem í boði er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×