Sport

„Frá­bær stemning og ég er á­nægður að sjá fólkið okkar aftur“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Jaka Brodnik
Jaka Brodnik Vísir / Bára Dröfn Kristinsdóttir

Keflavík vann frábæran sigur gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar þegar liðin mættust í Blue höllinni í kvöld. Jaka Brodnik var öflugur í liði Keflavíkur sem vann 92-71 og ræddi við Vísi eftir leik.

„Það var kannski ekki viðbúið að munurinn yrði svona mikill“ sagði Jaka Brodnik leikmaður Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Mér fannst við vera að gera okkar vel og spiluðum vörn saman sem lið. Allir voru tilbúnir í verkefnið og þetta var á endanum verðskuldaður sigur“

Aðspurður um það hver lykillinn af þessum sigri væri var Jaka Brodnik á því að ákefðin hafi skilað miklu.

„Ég held að það hafi klárlega verið ákefðin. Við jöfnuðum þá alveg frá byrjun og við vitum að Stjarnan er eitt af sterkari liðunum í þessari deild að spila við“

„Þeir eru miklir íþróttamenn, spila aggesíft og spila góða vörn á öllum vellinum en mér fannst við ná að jafna þá og á endanum gera það aðeins betur svo ég held að það hafi verið lykillinn af sigrinum í kvöld“

Það var mikil stemning í Blue höllinni í kvöld og það gaf Keflavík mikla orku og Jaka vonast til þess að þetta haldi áfram í vetur.

„Mér fannst þetta byrja svolítið hægt en svo sáu þau að við þurftum eitthvað smá og við náum að gefa stúkunni ástæðu til að gleðjast og undir restina var þetta frábær stemning og ég er ánægður að sjá fólkið okkar aftur“

„Við eigum erfitt prógram strax á mánudaginn þegar við spilum við Þór Þorlákshöfn í bikarnum en það er annar heimaleikur svo við reynum að verja heimavöllinn og höldum áfram“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×