Viðskipti innlent

Boðar skatt á inn­lendar og er­lendar streymisveitur

Árni Sæberg skrifar
Logi Már Einarsson er ráðherra menningarmála.
Logi Már Einarsson er ráðherra menningarmála. Vísir/Vilhelm

Menningar, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hefur kynnt til samráðs drög að frumvarpi um svokallað menningarframlag bæði innlendra og erlendra streymisveitna. Það felur í sér fimm prósenta skatt af heildartekjum hér á landi. Ríkisútvarpið er undanþegið skattheimtunni.

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskri menningu og íslenskri tungu.

Komi niður á innlendri framleiðslu

Þar segir segir að á síðustu árum hafi samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem komi niður á framleiðslu innlends efnis og veiki þar með stöðu íslenskrar tungu.

Með frumvarpinu sé lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna, með starfsemi á Íslandi, til að greiða svokallað menningarframlag. Menningarframlag verði í formi skatts sem nemi fimm prósentum af heildartekjum streymisveitna af sölu áskrifta á Íslandi.

Fjárfestingar frádráttarbærar

Þá segir að gert sé ráð fyrir að skatturinn lækki í samræmi við umfang beinna fjárfestinga í framleiðslu á innlendu efni og falli niður þegar beinar fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni nema fimm prósentum af skattstofni. Heimilt verði að dreifa kostnaði við beina fjárfestingu í innlendu efni sem er umfram fimm prósent af stofni til útreiknings menningarframlags á allt að þrjú ár.

Minni streymisveitur og Rúv undanþegin

Streymisveitur með ársveltu undir tuttugu milljónum króna eða áskrifendafjölda undir einu prósenti af fjölda heimila á Íslandi, verði undanþegnar greiðslu menningarframlags.

Ríkisútvarpið verði undanþegið greiðslu menningarframlags, með vísan til þeirra skyldna sem nú þegar hvíla á Ríkisútvarpinu um þátttöku þess í kvikmynda- og sjónvarpsgerð, meðal annars með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. Hið sama gildi um aðra sambærilega fjölmiðla sem heyra undir lög um um almannaþjónustufjölmiðla í öðrum EES-ríkjum.

Þá verði streymisveitur sem eingöngu miðla íþróttaefni, fréttum eða trúarlegu efni undanþegnar greiðslu menningarframlags.

Framlag í Kvikmyndasjóð hækkar

Markmið frumvarpsins sé að efla íslenska menningu og íslenska tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu kvikmynda, stuttmynda, leikins sjónvarpsefnis og heimildamynda, sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun. 

Frumvarpið sé liður í því að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Auk þess kunni aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.

Áætlað sé að frumvarpið muni skila tekjum sem renni í ríkissjóð. Til að unnt verði að ná því markmiði sem að er stefnt með frumvarpinu miðist tillagan við þá grundvallarforsendu að framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð verði hækkað sem þeirri upphæð nemur, með ákvörðun Alþingis, sem ákveði skiptingu fjárheimilda til málefnasviða og málaflokka í fjárlögum ár hvert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×