Íslenski boltinn

Er eitt­hvað ó­eðli­legt að búið sé að gagn­rýna þetta Valslið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Valsliðsins, fannst hann hafa fengð ósanngjarna umfjöllun en Stúkumenn eru ekki sammála því.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Valsliðsins, fannst hann hafa fengð ósanngjarna umfjöllun en Stúkumenn eru ekki sammála því. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valsmenn eru í lykilstöðu til að tryggja sér Evrópusæti eftir sigur á Stjörnunni í síðustu umferð. Srdjan Tufegdzic, þjálfari Valsliðsins, var hins vegar eitthvað pirraður á umfjölluninni um sitt lið og það kom vel í ljós í viðtali eftir leikinn.

Stúkan sýndi viðtalið við Srdjan Tufegdzic eftir sigurinn á Stjörnunni en það var fyrsti sigur liðsins síðan í ágúst. Í framhaldinu ræddu þeir Bjarni Guðjónsson og Albert Brynjar Ingason kvartanir Tufegdzic yfir umfjölluninni um sitt lið.

Klárlega eitthvað að pirra hann

„Umræðan er alveg klárlega eitthvað að pirra hann. Ég held að þegar þú ert að þjálfa lið eins og Val og svona þessi stærri lið á Íslandi, þá þarftu að sætta þig við það að umræðan fer oft út fyrir kannski einhver mörk sem þér finnst eðlilegt sem þjálfara,“ sagði Bjarni.

„Valur er alltaf eitt af þeim liðum sem um er rætt. Þeir eyða mikið af peningum í liðið sitt og eru alltaf með þá kröfu, sama hvað þeir reyna að segja svo út á við, að þeir vilji alltaf fara að vinna. Sem er gott hjá þeim að gera,“ sagði Bjarni.

Með frábært lið í höndunum

„Það lenda allir í meiðslum en hann er með frábært lið í höndunum. Hann er með tvo bestu kantmennina á Íslandi í liðinu sínu. Hann er með flotta vörn. Stefán er góður markmaður þó að [Frederik] Schram sé vissulega betri,“ sagði Bjarni.

Klippa: Stúkan fór yfir viðtalið við Tufegdzic eftir Valsleikinn

„Er eitthvað óeðlilegt að búið sé að gagnrýna þetta Valslið að vera ekki nær því að vinna deildina í ár eða er þetta búið núna?“ spurði Bjarni.

Albert Brynjar Ingason lítur svo á að Valsmenn hafi misst af gullnu tækifæri á því að vinna titilinn.

Toppbaráttan aldrei verið jafn slök

„Við töluðum um það fyrr á tímabilinu að þetta gæti orðið dauðafæri. Arnar [Gunnlaugsson] hætti með Víkinga, Blikar að verja titil. Við höfum séð það áður, það gengur ekki vel. Og toppbaráttan núna hefur bara aldrei verið jafn slök,“ sagði Albert.

Valsmenn fóru vissulega í bikarúrslitaleikinn og voru þar nálægt titli.

„Þeir tapa gegn mögulega fallliði Vestra. Þú veist, þetta er Valur. Það er ekki nóg að vera þarna í kring. Þeir eiga að vinna hluti og það er búið að leggja þannig í þetta lið. Þetta er vinna núna lið,“ sagði Albert.

Hann segir Valsliðið hafa verið hörmulegt í Evrópuleikjunum og er hneykslaður á því að þjálfarinn sé að tala um árangur liðsins í Lengjubikarnum.

Þá ertu orðinn örvæntingarfullur

„Lengjubikar. Án gríns. Hver er að tala um Lengjubikar? Þá ertu orðinn örvæntingarfullur. Svo er hann að tala um að það sé talað eins mikið um aðra þjálfara,“ sagði Albert og fór yfir þjálfarana sem voru í toppbaráttunni í sumar.

„Það er ekki rétt. Það er búið að tala mjög mikið um KR og Óskar [Hrafn Þorvaldsson]. Það er búið að tala mjög mikið um Jökul [Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar] og það er búið að tala endalaust um Dóra [Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks]. Það er búið að vaða í Sölva [Geir Ottesen, þjálfara Vikings] á tímapunkti,“ sagði Albert.

Þetta tímabil var bara lagt upp fyrir Val

„Auðvitað vilja Valsmenn meira, sérstaklega því að þetta tímabil var bara lagt upp fyrir Val. Að núna eftir öll þessi ár eða síðustu ár þar sem þeir eru búnir að sækja Hólmar [Örn Eyjólfsson], að sækja Aron [Jóhannsson], að sækja Gylfa [Sigurðsson], að vera með besta framherjann [Patrick Pedersen], Tryggva Hrafn er þarna [Marius] Lundemo kostar, [Markus Lund] Nakkim kostar. Hann eyddi miklum peningum í [Albin] Skoglund,“ sagði Albert.

„Þetta eru fjögur töp, eitt jafntefli og tveir sigrar í síðustu sjö leikjum. Þetta er bara lélegt. Það þýðir ekki að koma loksins eftir einhvern leik þarna sem var ekki einu sinni góður og koma með eitthvað svona bull. Punktur,“ sagði Albert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×