Innlent

Ás­mundur Einar segir skilið við stjórn­málin

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason var mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason var mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra, hefur ákveðið að láta af embætti ritara Framsóknar. Hann segir skilið við stjórnmálin og snýr sér að öðrum verkefnum.

„Tíminn minn í stjórnmálum hefur verið mikill lærdómur og ég er þakklátur fyri rða hafa fengið að vinna að mikilvægum málum með öflugu fólki víða um land,“ skrifar Ásmundur Einar í færslu á Facebook-síðu Framsóknarfólks.

Hann tilkynnti um afsögnina á landsstjórnarfundi sem haldinn var fyrr í dag og kosið verður á ný í embætti ritara á miðstjórnarfundi flokksins þann 18. október.

„Það er mikilvægt að nýr ritari hafi svigrúm, tíma og elju til að sinna innra starfi flokksins, sérstaklega á kosningaári. Ritari gegnir lykilhlutverki í þeirri vinnu og því er farsælast að velja nýjan ritara núna en ekki bíða með það til flokksþings.“

Ásmundur segist ætla snúa sér að nýjum verkefnum sem krefjist fullrar athygli hans. 

„Ég tel það heiðarlegast gagnvart flokknum, fjölskyldunni og sjálfum mér að afhenda keflið á þessum tímapunkti.“

Ásmundur Einar var fyrst þingmaður Vinstri grænna árin 2009 til 2011 en skipti yfir í Framsóknarflokkinn 2011 og gegndi þar embætti þingmanns til ársins 2024. Í Alþingiskosningunum 2024 leiddi Ásmundur Einar lista Framsóknar í Reykjavík norður en hlaut ekki kjör inn á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×