Fótbolti

Chiesa græðir á ó­heppni landa síns

Sindri Sverrisson skrifar
Federico Chiesa stóð sig frábærlega í deildabikarnum á þriðjudagskvöld.
Federico Chiesa stóð sig frábærlega í deildabikarnum á þriðjudagskvöld. Getty/James Gill

Vikan verður bara betri og betri hjá Federico Chiesa, Ítalanum í liði Liverpool, því hann gæti núna þrátt fyrir allt fengið að spila í Meistaradeild Evrópu í haust.

Samkvæmt hinum virta ítalska blaðamanni Gianluca Di Marzio hefur Liverpool ákveðið að nýta nýja reglu UEFA til þess að hleypa Chiesa inn í Meistaradeildarhóp sinn, eftir að Arne Slot valdi hann ekki í upphaflega hópinn.

Nýja reglan heimilar að kalla inn leikmann ef annar leikmaður meiðist og það gerðist einmitt í 2-1 sigrinum gegn Southampton í deildabikarnum í vikunni, þegar Giovanni Leoni sleit krossband.

Chiesa nýtur þannig góðs af meiðslum hins unga landa síns sem mun tæplega geta spilað meira á þessari leiktíð. Di Marzio segir aðeins eftir að tilkynna það opinberlega að Chiesa fái sæti Leoni.

Hinn 27 ára gamli Chiesa var líklega stærsta nafnið sem vantaði í Meistaradeildarhóp Liverpool en hann minnti heldur betur á sig með tveimur stoðsendingum gegn Southampton, eftir að hafa skorað sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni á ögurstundu gegn Bournemouth í fyrstu umferð í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×