Innlent

Ekki slys á gangandi veg­far­enda í „hættu­legum beygjuvösum“ í tuttugu ár

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls séð úr austri.
Gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls séð úr austri. Vísir/Sigurjón

Ekki hefur orðið eitt einasta slys á gangandi vegfarendum eða hjólandi í beygjuvösum sem hafa verið fjarlægðir við gatnamót Höfðabakka og Bæjarháls. Vasarnir eru sagðir skapa mikla hættu fyrir gangandi og hjólandi. Árið 2008 varð alvarlegt slys í eina beygjuvasanum sem hefur ekki verið fjarlægður. 

Fréttastofa hefur fjallað um þessar umdeildu framkvæmdir í sumar en við gatnamótin hafa beygjuvasar frá Bæjarhálsi inn á Höfðabakka til norðurs annars vegar og frá Höfðabakka inn á Streng til vesturs hins vegar verið fjarlægðir. 

Einn beygjuvasi stendur eftir; frá Höfðabakka og inn á Bæjarháls til austurs en annars eru gatnamótin með öllu ljósastýrð.

Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi í dag segir að ákveðið hafi verið að fjarlægja vasann inn á Streng þar sem umferðartalningar sýndu litla eftirspurn eftir hægri beygju. Þá skapi vasinn hættu fyrir gangandi vegfarendur. Vasinn inn á Höfðabakka er sagður fjarlægður þar sem hann hafi reynst hættulegur og torveldað tengingar hjóla- og göngustíga. 

Engin slys

Á kortavefsjá map.is eru tekin saman gögn frá Samgöngustofu um staðsetningu allra tilkynntra umferðarslysa á landinu frá árinu 2004. Þar sést að engin slys hafa orðið á gangandi og hjólandi í beygjuvösunum tveimur sem voru fjarlægðir. Hins vegar varð slys árið 2008 í eina beygjuvasanum sem hefur ekki verið fjarlægður. Þar slasaðist níu ára drengur á hjóli alvarlega þegar ekið var á hann.

Á síðustu tuttugu árum hafa þrjú önnur slys orðið við gatnamótin á gangandi og hjólandi, en öll þeirra gerðust á Höfðabakka þar sem ekið er til norðurs, ekki í beygjuvösunum. 

Gatnamótin eru þó ekki með öllu hættulaus og þar hafa orðið árekstrar ökutækja, þar sem ökumenn óku ýmist aftan á annan bíl, inn í hliðina á öðrum bíl eða á skilti og ljósastaura. Sextán sinnum slasaðist ökumaður lítillega og aðeins eitt slys er metið sem alvarlegt slys þegar ekið var á níu ára drenginn á hjóli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×