Innlent

Krefur Reykja­víkur­borg um frekari svör vegna fundar­gerðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristín Benediktsdóttir er Umboðsmaður Alþingis.
Kristín Benediktsdóttir er Umboðsmaður Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis hefur krafið Reykjavíkurborg um frekari svör varðandi fundargerð sem var tekin út af vef borgarinnar og síðan endurbirt, með breyttri umsögn skipulagsfulltrúa.

Umboðsmaður óskaði upphaflega eftir upplýsingum eftir að greint var frá því að fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dagsett 15. maí síðastliðinn, þar sem meðal annars var fjallað um „græna gímaldið“ svokallaða, hefði verið tekin út af vef borgarinnar og síðan endurbirt.

Í millitíðinni hefði umsögn skipulagsfulltrúa sem fylgdi fundargerðinni verið breytt. Fyrri umsögnin hefði verið dagsett 15. mars en sú síðari 15. maí.

Lögmaður Reykjavíkurborgar svaraði erindi Umboðsmanns og sagði mannleg mistök hafa leitt til þess að drög voru birt í stað endanlegrar útgáfu.

Umboðsmaður óskar nú frekari upplýsinga í þeim tilgangi að „varpa gleggra ljósi“ á atburðarásina og fer fram á að fá afrit af öllum gögnum og samskiptum starfsmanna Reykjavíkurborgar varðandi umsögn skipulagsfulltrúa og meðferð hennar.

Tiltekur hún sérstaklega öll samskipti um vinnslu umsagnarinnar, öll samskipti um málið eftir afgreiðslufund skipulagsfulltrúa, öll fundargögn afgreiðslufundar um málið og öll samskipti starfsmanna borgarinnar um málið í aðdraganda fundarins.

Þá óskar hún eftir því að borgin upplýsi „hvers vegna nafn viðkomandi starfsmanns fylgir þeirri umsögn sem upprunalega var birt en ekki þeirri sem síðar var birt“.

„Að endingu er þess óskað að upplýst verði hvers vegna fundargerð afgrieðslufundar skipulagsfulltrúa ber þess engin merki að fylgiskjali með henni hafi verið skipt út,“ segir Umboðsmaður. „Í því efni er sérstaklega haft í huga að fundargerðartextinn sjálfur ber ekki með sér hvers efnis hin samþykkt umsögn er heldur aðeins að sú umsögn, sem lögð er með fundargerðinni sem fylgiskjal, hafi verið samþykkt.“

Reykjavíkurborg hefur til 29. september til að skila svörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×