Handbolti

„Reyndum allt en ekkert gekk upp“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Erlingur Richardsson er þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson er þjálfari ÍBV. Vísir/Pawel

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, segir að lið sitt hafi ekki náð upp almennilegum takti í leik sinn þrátt fyrir að hafa reynt í raun allt í tapinu gegn FH í leik liðanna í Olís-deild karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. 

„Það má segja að við höfum verið að fara í fyrsta stóra prófið eftir að hafa spilað tvo heimaleiki í upphafi tímabils. Okkur líður greinilega vel á heimavelli en þurfum að gíra okkur betur í komandi útileiki það er ljóst,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn.

„Við vorum eiginlega bara sundurspilaðir af FH að þessu sinni. Við náðum aldrei að stöðva flæðið á þeim og þeir skora alltaf í bakið á okkur þegar við erum við það að koma okkur inn í leikinn. Því fór sem fór,“ sagði Erlingur þar að auki.

„Við prófuðum allt held, bæði í varnarleiknum og sóknarleiknum og reyndum hvað við gátum. Skorum 30 mörk sem er jákvætt en að fá á sig 36 mörk er á hinn bóginn allt of mikið og erfitt að vinna þegar þú spilar ekki betri vörn en við gerðum. Svo fann Petar sig ekki eins og hann var búinn að gera í fyrstu tveimur leikjunum,“ sagði hann

„Við erum 10 mínútur útaf í fyrri hálfleik sem er allt of mikið. Þeir nýttu sér það til fulls. Mér fannst kannski vanta aðeins vanta samræmi í dóma á báðum endum vallarins. Sigtryggur Daði fær rautt spjald en Daníel Þór er sleginn í andlitið og blóðgaður hinu megin en það eru tvær mínútur sem dæmi. Þar var refsingin ekki nægjanleg að mínu mati,“ sagði Eyjamaðurinn um þróun leiksins.

Aðspurður um hvernig honum finnist staðan vera á Eyjaliðinu eftir fyrstu þrjá leiki deildarinnar sagði Erlingur: „Við erum með blöndu af yngri og eldri leikmönnum og erum enn að átta okkur á því hvaða leikmenn passa best saman og ná takti. Það er svolítið langt í land með að ná upp stöðugleika í spilamennsku okkar. Það er hlutverk mitt að þjálfa leikmennina og bæta þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×