Fótbolti

Messi að fram­lengja við Inter Miami

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi mun væntanlega halda kyrru fyrir í Miami.
Lionel Messi mun væntanlega halda kyrru fyrir í Miami. epa/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Flest bendir til þess að Lionel Messi skrifi undir nýjan samning við bandaríska fótboltaliðið Inter Miami.

Argentínumaðurinn gekk í raðir Inter Miami sumarið 2023. Síðan hann kom hefur liðið unnið deildabikar Norður- og Mið-Ameríku og varð deildarmeistari í MLS-deildinni í fyrra.

Samkvæmt heimildum ESPN eru viðræður Messi og Inter Miami um nýjan samning á lokastigi.

Messi, sem er 38 ára, hefur skorað 62 mörk í 75 leikjum fyrir Inter Miami sem er í eigu Davids Beckham. Liðið byrjaði að spila í MLS tímabilið 2020.

Messi er einn fjögurra fyrrverandi leikmanna Barcelona sem leika með Inter Miami. Hinir eru Luis Suárez, Sergio Busquets og Jordi Alba. Þjálfari liðsins, Javier Mascherano, er einnig fyrrverandi leikmaður Barcelona.

Alls eru tíu argentínskir leikmenn á mála hjá Inter Miami, meðal annars Rodrigo De Paul sem varð heimsmeistari með Messi fyrir þremur árum.

Heimsmeistaramótið verður haldið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári. Telja verður líklegt að Messi taki slaginn með argentínska landsliðinu og spili á sínu sjötta heimsmeistaramóti. Messi hefur leikið 194 landsleiki og skorað 114 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×