Innlent

Tví­burarnir fengu ár í við­bót

Árni Sæberg skrifar
Shamsudin bræðurnir ásamt verjanda í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar fyrirtaka var í máli þeirra í ágúst.
Shamsudin bræðurnir ásamt verjanda í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar fyrirtaka var í máli þeirra í ágúst. Vísir/Anton Brink

Tvíburabræðurnir Elías og Jónas Shamsudin hafa verið dæmdir í tólf mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Í síðustu viku staðfesti Landsréttur tveggja og hálfs árs dóm yfir bræðrunum fyrir önnur fíkniefnabrot.

Dómur var kveðinn upp yfir bræðrunum þann 2. september síðastliðinn. Málið var upphaflega mjög umfangsmikið en við fyrirtöku í því í ágúst féll ákæruvaldið frá fjölda ákæruliða og bræðurnir játuðu brot sín skýlaust samkvæmt nýrri ákæru.

Upphaflega voru ákæruliðir málsins tíu talsins, og taldi ákæran heilar átta blaðsíður. Þar voru sakborningarnir ákærðir fyrir skjalafals, þjófnað og fíkniefnabrot.

Þeim var meðal annars gefið að sök að svíkja út vörur úr verslun Símans með því að leggja fram falskar beiðnir í nafni Fiskmarkaðs Suðurnesja. Þá voru þeir ákærðir fyrir þjófnað á stólum, gröfu og kerru. Þeir voru jafnframt ákærðir fyrir að flytja til landsins 377 grömm af kókaíni frá Dóminíska lýðveldinu og rækta kannabisplöntur.

Kókaín og amfetamín

Það sem eftir stóð í ákærunni hvað tvíburana varðar voru þrír ákæruliðir vegna fíkniefnalagabrota. Jónas var ákærður fyrir tilraun til fíkniefnalagabrots, með því að hafa staðið að innflutningi á 347,16 grömmum af kókaíni í sölu-og dreifingarskyni, sem flytja átti til landsins í desember 2020 með pakka frá Belgíu. Fíkniefnin voru falin í rafhlöðuhólfi svifbrettis.

Bræðurnir voru báðir ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 12. mars 2021 haft í vörslum sínum í sölu-og dreifingarskyni 487,80 grömm af amfetamíni. Elías hafi þann dag beðið ótilgreinda konu um að taka efnin úr frysti á heimili þeirra í Grindavík, sem hún hafi gert og ekið með til Elíasar þar sem hún hafi  afhent honum þau í Reykjavík. Elías hafi sett fíkniefnin í bifreið. Síðar um daginn hafi hann afhent Jónasi fíkniefnin, sem hafi ekið með þau til Akureyrar, þar sem hann hafi verið handtekinn.

Elías var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot með því að hafa þann 12. mars 2021 haft í vörslum sínum í bifreið 506,9 grömm af amfetamíni í sölu-og dreifingarskyni og skammbyssu af gerðinni Browning.

Loks var Jónas ákærður fyrir fíkniefnalagabrot og hylmingu með því að hafa þann 12. mars 2021 haft í vörslum sínum 30 stykki af Rítalín Uno, sem lögregla hafi fundið við leit í bifreið og fyrir hylmingu en bifreiðinni hefði verið stolið þann 26. febrúar 2020.

Ár í hegningarauka

Í kafla dómsins um ákvörðun refsingar er brotaferill bræðranna rakinn og þar segir refsingu þeirra beri að tiltaka sem hegningarauka við þá refsingu sem þeir hlutu í upphafi árs, þegar þeir voru dæmdir til 2,5 ára fangelsisvistar. Sú refsing var staðfest í Landsrétti síðastliðinn fimmtudag.

Með hliðsjón af játningu bræðranna en einnig sakaferli þeirra og alvarleika brotanna var refsing þeirra ákveðin eins árs hegningarauki. Þá segir að ekki þyki fært að skilorðsbinda refsingu þeirra þegar af þeirri ástæðu að um er að ræða hegningarauka við óskilorðs bundinn fangelsisdóm sem einnig var vegna stórfelldra fíkniefnalagabrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×