Erlent

For­dæmir notkun fánans í þágu ótta og ras­isma

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur tjáð sig um atburði gærdagsins. 
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur tjáð sig um atburði gærdagsins.  EPA

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands fordæmir ofbeldisverk á mótmælum þjóðernissinna gegn innflytjendum í Lundúnum í gær. 

„Fáninn okkar endurspeglar fjölbreytta þjóð og við ætlum aldrei að láta hann af hendi til fólks sem notar hann sem tákn ofbeldis, ótta og skautunar,“ skrifar Starmer í færslu á samfélagsmiðilinn X.

Hann áréttir að friðsæl mótmæli sé eitt grunngilda Breska samveldisins. 

„En við umberum ekki ofbeldi gegn lögreglumönnum eða gegn fólki sem upplifir að því sé ógnað vegna þjóðernis síns eða húðlitar. Bretland er þjóð sem er byggð á umburðarlyndi, fjölbreytni og virðingu.“

Hátt í 150 þúsund manns komu saman í miðborg Lundúna til að mótmæla straumi innflytjenda til landsins og aðgerðaleysi stjórnvalda í þeim málum. Fjarhægrimaðurinn Tommy Robinson skipulagði mótmælin og meðal ræðumanna voru Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump, og auðjöfurinn Elon Musk. 

Í erindi sínu sagði Musk stjórnleysi ríkja í innflytjendamálum í Bretlandi og sakaði bresk stjórnvöld um að hafa brugðist breskum ríkisborgurum sem minna mega sín. Hann sagði nauðsynlegt að rjúfa þing og efna til kosninga hið snarasta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×