Erlent

Mál úgandsks stríðs­herra gæti haft þýðingu fyrir Pútín og Netanja­hú

Kjartan Kjartansson skrifar
Joseph Kony, leiðtogi Andspyrnuher drottins í Úganda. Hann gæti verið ákærður fyrir stríðsglæpi að sér fjarstöddum.
Joseph Kony, leiðtogi Andspyrnuher drottins í Úganda. Hann gæti verið ákærður fyrir stríðsglæpi að sér fjarstöddum. AP/Stuart Price

Saksóknarar við Alþjóðaglæpadómstólinn ætla að leggja fram gögn til að styðja ákæru á hendur úgöndskum stríðsherra vegna stríðsglæpa og glæpi gegn mannkyninu að honum fjarstöddum. Málið er sagt geta haft fordæmisgildi þar sem grunaður maður er ekki í haldi, til dæmis fyrir Vladímír Pútín og Benjamín Netanjahú.

Joseph Kony er grunaður um morð, kynlífsánauð og nauðganir á þeim tíma sem hann leiddi Andspyrnuher drottins sem hélt norðanverðu Úganda í heljargreipum á sínum tíma. Hann er talinn á lífi en á flótta, mögulega á landamærum Miðafríkulýðveldisins og Suður-Darfúr í Súdan.

Þrátt fyrir það ætla saksóknarar að leggja fram gögn til að styðja ákæru á hendur honum fyrir Alþjóðaglæpadómstólnum. Dómarar geta ákveðið að staðfesta ákærurnar eða vísa þeim frá en ekki er hægt að fella dóm yfir Kony að honum fjarstöddum.

AP-fréttastofan segir að málið gegn Kony geti verið prófmál fyrir þá sem eru grunaðir um glæpi gegn mannkyninu eða stríðsglæpi en eru ekki í haldi. Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur gefið út handtökuskipanir á hendur bæði Vladímír Pútín Rússlandsforseta og Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vegna stríðsglæpa í Úkraínu annars vegar og á Gasa hins vegar.

Hersveitir Kony voru virkar á 10. áratug síðustu aldar en misstu þrótt á fyrsta áratug þessarar aldar. Hann hefur ekki fundist þrátt fyrir tilraunir til þess að svæla hann út. Furðuleg samfélagsmiðlaherferð gerði hann að heimsþekktu nafni í stutta stund árið 2012 en þá deildi fjöldi stórstjarna eins og Kim Kardashian og Rihanna myndbandi sem bandarísk samtök gerðu um glæpi Kony gegn börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×