Erlent

Segir af sér sem ráð­herra og vara­for­maður Verka­manna­flokksins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í skýrslunni segir að jafnvel þótt Rayner hafi verið í góðri trú, hefði hún átt að leita sérfræðiráðgjafar.
Í skýrslunni segir að jafnvel þótt Rayner hafi verið í góðri trú, hefði hún átt að leita sérfræðiráðgjafar. Getty/Mark Kerrison

Angela Rayner, aðstoðarforsætisráðherra og húsnæðismálaráðherra Bretlands, hefur sagt af sér. Athugun leiddi í ljós að hún hefði ekki greitt alla þá skatta og gjöld sem hún átti að greiða þegar hún keypti 800.000 punda íbúð í Austur-Sussex.

Utanaðkomandi ráðgjafi, Sir Laurie Magnus, var fenginn til að meta það hvort Rayner hefði brotið gegn siðareglum ráðherra. Í skýrslu sinni til forsætisráðherrans Keir Starmer segir hann meðal annars að þrátt fyrir að Rayner hafi verið sagt að hún ætti að greiða lægri stimpilgjöld, hafi tvívegis verið ítrekað við hana að ekki væri um að ræða sérfræðiráðgjöf og að hún ætti að leita til sérfræðinga.

Þetta hefði hún ekki gert og þannig ekki staðist ítrustu kröfur sem gerðar væru til ráðherra.

Magnus segir að málið sé flókið; Rayner hefði selt 25 prósenta hlut sinn í fasteign fjölskyldunnar í Ashton-under-Lyne og ákveðið í kjölfari að kaupa íbúð í Hove. Hún hefði verið í góðri trú um að þar sem hún ætti ekki lengur í fasteign þyrfti hún að greiða lægri stimpilgjöld vegna kaupa á íbúðinni.

Selda fasteignin var hins vegar í eigu sjóðs, sem ólögráða börn Rayner virðast eiga hlut í. Samkvæmt reglum hafi hún þannig átt hagsmuna að gæta varðandi það húsnæði og hefði átt að greiða hærri stimpilgjöld vegna íbúðarinnar.

Hún hefði sjálf vísað málinu til skoðunar og sýnt fullan samstarfsvilja.

Starmer hefur svarað afsögn Rayner, þar sem hann segist harma að störfum hennar hafi lokið með þessum hætti. Hún hefði hins vegar gert rétt.

Sjálf segir Rayner í afsögn sinni að hún harmi mistökin og axli fulla ábyrgð á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×