Fótbolti

HM-hetja hvarf eftir að hafa fengið sér kaffi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guillermo Ochoa hefur leikið 151 landsleik fyrir Mexíkó.
Guillermo Ochoa hefur leikið 151 landsleik fyrir Mexíkó. EPA/ADAM DAVIS

Allt benti til þess að mexíkóski markvörðurinn Guillermo Ochoa myndi semja við spænska B-deildarliðið Burgos á lokadegi félagaskiptagluggans. Ekkert varð hins vegar af því eftir nokkuð sérstaka atburðarás.

Ochoa lék með AVS í portúgölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en átti í viðræðum við spænska B-deildarliðið Burgos um að spila með því í vetur.

Hinn fertugi Ochoa hafði gengist undir læknisskoðun og allt virtist klappað og klárt fyrir félagaskiptin. En Ochoa vildi þá að einu atriði í samningnum yrði breytt og fór í kjölfarið út til að fá sér kaffi.

Hann sneri aldrei aftur og forráðamenn Burgos heyrðu ekki meira í markverðinum. Hann svaraði ekki símanum og enginn veit hvað varð af honum.

Eftir að Ochoa hafði skilið Burgos-menn eftir í lausu lofti þurftu þeir að hafa hraðar hendur við að finna nýjan markvörð og sömdu við Jesus Ruiz.

Ochoa er mikil hetja í HM-sögunni en hann hefur spilað á fimm mótum og oftar en ekki sýnt frábæra frammistöðu. Ochoa gæti spilað á sjötta heimsmeistaramótinu á næsta ári en Mexíkó heldur það ásamt Kanada og Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×