Enski boltinn

Reiddist eigin að­dá­endum en baðst svo af­sökunar

Sindri Sverrisson skrifar
Liðsfélagarnir sáu í hvað stefndi og héldu aftur af Jarrod Bowen.
Liðsfélagarnir sáu í hvað stefndi og héldu aftur af Jarrod Bowen. Getty/Mike Egerton

Jarrod Bowen, fyrirliði West Ham, var stöðvaður af liðsfélögum sínum þegar hann virtist á leiðinni upp í stúku eftir að hafa átt í orðaskaki við stuðningsmenn í gærkvöld.

Bowen hefur þegar beðist afsökunar á framferði sínu en hann var bersýnilega reiður eftir eitthvað sem sagt var við hann að loknu afar sáru 3-2 tapi gegn Wolves í enska deildabikarnum í fótbolta í gær.

Þeir stuðningsmenn West Ham sem fylgdu liðinu á leikinn sáu Hamrana missa niður 2-1 forskot á lokakafla leiksins þegar Jörgen Strand Larsen skoraði tvívegis fyrir heimamenn. Áður hafði West Ham tapað illa í fyrstu tveimur leikjum sínum í úrvalsdeildinni, 3-0 gegn Sunderland og 5-1 gegn Chelsea.

Hér að neðan má sjá þegar Bowen reifst við stuðningsmenn og eins og sjá má endaði það með því að liðsfélagar hans, Tomas Soucek og Alphonse Areola, þurftu að stökkva til og koma honum í burtu.

Miðað við athugasemdir á samfélagsmiðlum virðast stuðningsmenn West Ham styðja við Bowen og frekar blöskra framferði þeirra stuðningsmanna sem reittu fyrirliðann til reiði.

Bowen virðist engu að síður hafa séð að sér því hann birti svo afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum mjög skömmu síðar.

„Ég bið stuðningsmenn afsökunar á viðbrögðum mínum í kvöld. Ég er ástríðufullur maður og mun alltaf berjast þegar ég stíg inn á völlinn. En ég verð að sýna betra fordæmi og þið stuðningsmenn vitið hversu mikið ég dýrka ykkur og þetta félag!

Við komumst saman í gegnum erfiða tíma og ég sé ykkur á sunnudaginn,“ skrifaði Bowen.

West Ham sækir Nottingham Forest heim á sunnudaginn í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×