Bíó og sjónvarp

Sann­færði Balta um að snúa aftur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Baltasar leist vel á handritið að Dark Ocean og sannfærðist um að leika í henni.
Baltasar leist vel á handritið að Dark Ocean og sannfærðist um að leika í henni. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Leikstjórinn Baldvin Z sannfærði Baltasar Kormák, sem hefur einblínt á kvikmyndaleikstjórn frá aldamótum, um að færa sig úr leikstjórastólnum fram fyrir kvikmyndatökuvélina á ný fyrir nýja spennumynd. 

Tímaritið Variety grein­ir frá fréttum af myndinni Dark Ocean sem verður leikstýrt af Baldvin Zophoníassyni og er framleidd af Glassri­ver. Auk Baltasars munu Ólafur Darri Ólafs­son, Þor­steinn Bachmann og Þor­valdur Davíð Kristjáns­son leika í myndinni.

Leik­ar­arn­ir og söguþráður mynd­ar­inn­ar verða formlega kynnt­ir í dag á Nor­ræna meðfram­leiðenda­markaðnum í Haugasundi í Nor­egi.

„Baltas­ar er frá­bær leik­ari og ég hef reynt að fá hann á hvíta tjaldið í þónokk­urn tíma en hann er bara alltaf mjög upp­tek­inn!“ er haft eft­ir Bald­vin Z.

Baltasar hefur fyrst og fremst einblínt á leikstjórn síðustu tuttug ár. Síðast lék Baltasar í sinni eigin mynd, Eiðnum, árið 2016 og þar áður Reykjavík-Rotterdam (2008) sem hann leikstýrði einnig sjálfur.

Átakanleg sjóferð eftir snjófljóð

Hugmynd­ Baldvins að mynd­inni kviknaði þegar hann las frétt árið 2015 þar sem fram kom að árið 1995 hafi hóp­ur sjó­manna farið í land til að hjálpa til við að finna þá sem höfðu graf­ist und­ir í snjóflóðinu fyr­ir vest­an.

„Eft­ir þessa átak­an­legu reynslu fóru þeir beint aft­ur út á sjó og dvöldu þar í mánuð. Þeim var bannað að tala um það og tjá til­finn­ing­ar sín­ar,“ sagði Baldvin við Variety.

Þegar MeToo-bylgjan reið yfir hafi loksins verið tekið á eitraðri karlmennsku og Baldvin hafi áttað sig á því að hann hafi sjálfur orðið fyrir áhrifum eitraðrar karl­mennsk­u án þess að átta sig á því. Hann hafi viljað kafa djúpt ofan í efnið og leitað til handritshöfundarins Matth­ías­ar Tryggva sem er af yngri kynslóð en Baldvin.

Sjóferðin í myndinni breytist fljótt í mar­tröð þegar einn í áhöfninni frem­ur sjálfs­morð um borð og skip­stjór­inn neit­ar að snúa aft­ur í land.

„Ég var mjög ánægður með handrit Baldvins og kom það mér skemmti­lega á óvart að hann skyldi hafa sam­band við mig,“ sagði Baltasar um verkefnið. Hlutverkið hentaði honum vel og hann hafi þess vegna ákveðið að slá til.

Bald­vin segir næst á dagskrá að finna skip fyr­ir tök­urn­ar sem áætlað er að hefj­ist haustið 2026.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk i með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar 1700, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og síma Pieta-samtakanna, 552-2218, sem er opinn allan sólarhringinn.


Tengdar fréttir

Baltasar Kormákur og Ólafur Jóhann saman í Þjóðleikhúsinu

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur hefur skrifað nýtt leikrit fyrir Þjóðleikhúsið sem Baltasar Kormákur mun leikstýra. Leikritið heitir Íbúð 10B og fjallar um eiganda fjölbýlishúss í Reykjavík sem ákveður að breyta lúxusíbúð sinni í gistiheimili fyrir hælisleitendur. Íbúar í húsinu hittast svo til að leggja á ráðin um þessa stöðu. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.

Fyrsta stiklan úr miðaldaþáttum Balta

Fyrsta stiklan fyrir miðaldaþættina King & Conqueror sem fjalla um orrustuna við Hastings hefur verið birt en Baltasar Kormákur leikstýrir fyrsta þættinum og er yfirframleiðandi seríunnar. Fjöldi Íslendinga kom að gerð þáttanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.