Enski boltinn

Sjáðu guttann skora geggjað mark fyrir Liverpool: Ný stjarna fædd á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ngumoha fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Athletic Club Bilbao á Anfield í gær.
Rio Ngumoha fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Athletic Club Bilbao á Anfield í gær. Getty/Liverpool FC

Sextán ára strákur er að slá í gegn hjá Liverpool á undirbúningstímabilinu og hann var enn á ný í aðalhlutverki í gær, í síðasta leik liðsins á undirbúningstímabilinu.

Rio Ngumoha hefur skorað tvö mörk og lagt upp önnur tvö mörk í æfingarleikjum Englandsmeistara Liverpool í sumar.

Í gær spilaði Liverpool tvo leiki á móti spænska félaginu Athletic Club Bilbao á Anfield og vann þá báða. 

Þann fyrri vann Liverpool 4-1 og bjó Ngumoha til fyrstu tvö mörkin á upphafsmínútum leiksins.

Ngumoha skoraði fyrsta markið sjálfur eftir mikið einstaklingsframtak þar sem hann keyrði á vörn Bilbao og skorað með frábæru skoti.

Skömmu síðar lagði hann svo upp mark fyrir Darwin Núnez. Ben Doak og Harvey Elliott innsigluðu svo sigurinn.

Hugo Ekitike lagði upp fyrsta markið fyrir Mohamed Salah í 3-2 sigri í seinni leiknum en hin tvö mörkin skoraði Cody Gakpo. Salah gat skorað annað mark en klikkaði á víti í seinni hálfleiknum.

Frammistaða Ngumoha hefur heillað marga og það er ljóst að þarna er ný stjarna fædd á Anfield. Hann keyrir á vörnina við hvert tækifæri og það er mjög erfitt fyrir varnarmenn að eiga við hann.

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur líka leyft Ngumoha að spila fullt á undirbúningstímabilinu sem gefur fyrirheit um að guttinn verði í hlutverki hjá liðinu í vetur.

Hér fyrir neðan má sjá mark hans á Anfield í gær sem var af betri gerðinni. Hann skoraði það líka fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Liverpool í Kop-stúkunni sem gerði enn meira fyrir þetta frábæra mark stráksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×