Fótbolti

Hall­grímur átti auð­velt með að lesa gamlan læri­föður

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, þekkir vel til í Danmörku. 
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, þekkir vel til í Danmörku.  Vísir/Pawel

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, átti auðvelt með að lesa í leikskipulag Silkeborg í gærkvöldi þar sem hann hefur sjálfur spilað í svipuðu leikskipulagi, undir stjóranum Kent Nielsen.

Hallgrímur spilaði heillengi í dönsku úrvalsdeildinni, með Sönderjyske, Lyngby og OB. Hjá OB var hann þjálfaður af Kent Nielsen, núverandi þjálfara Silkeborg.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Kent Nielsen og við erum ánægðir með góð úrslit hér í Danmörku, þar sem íslensk lið hafa oft lent í vandræðum“ sagði Hallgrímur um sinn gamla læriföður í viðtali við Bold í morgun.

Hallgrímur Jónasson í leik með OB. Vísir/Getty

KA gerði 1-1 jafntefli gegn mun sterkari andstæðingi í gær og Hallgrímur segist hafa nýtt þekkingu sína á dönskum fótbolta.

„Ég fylgist enn vel með dönsku úrvalsdeildinni og spilaði undir Kent Nielsen, þannig að ég veit hvernig hann gerir hlutina. Það er ekki alltaf auðvelt að fá upplýsingar um andstæðinginn í Evrópukeppnum, en í þessu tilviki var það frekar auðvelt“ sagði Hallgrímur.

Seinni leikur liðanna fer fram á Greifavellinum á Akureyri í næstu viku og þar ætlar KA að gera gestunum erfitt fyrir.

„Við höfum enn meiri trú á verkefninu núna. Við erum með reynslumikið lið sem fór í gegnum þrjár umferðir í undankeppninni fyrir tveimur árum. Það verður mun erfiðara fyrir Silkeborg að spila að á okkar heimavelli“ sagði Hallgrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×