Fótbolti

Fimm ís­lenskir Evrópusigrar, sau­tján mörk í plús og met Blika og KR féll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson og félagar í Víkingsliðinu voru á miklu flugi í gær.
Valdimar Þór Ingimundarson og félagar í Víkingsliðinu voru á miklu flugi í gær. Vísir/Anton Brink

Íslensku liðin stóðu sig frábærlega í fyrstu umferð undankeppni Evrópukeppnanna tveggja og fóru öll þrjú mjög sannfærandi áfram.

Breiðablik, Víkingur og Valur eru þar með öll komin áfram í aðra umferð eftir fimm sigra í sex leikjum.

Blikar voru eina liðið sem missteig sig í 1-0 tapi á útivelli í fyrri leiknum en svaraði því með sannfærandi 5-0 sigri á albanska félaginu Egnatia á heimavelli í seinni leiknum. Blikar unnu því 5-1 samanlagt en þessi viðureign var í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Valsmenn unnu fyrri leikinn á móti Flora Tallin frá Eistlandi 3-0 á Hlíðarenda og fylgdu því eftir með 2-1 sigri á útivelli í gær. Valsmenn unnu því 5-1 samanlagt en þessi viðureign var í undankeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingar unnu fyrri leikinn á móti Malisheva frá Kósóvó 1-0 en í gær unnu þeir seinni leikinn 8-0 í Víkinni. Víkingar unnu því 9-0 samanlagt en þessi viðureign var í undankeppni Sambandsdeildarinnar.

Markatala íslensku liðanna í þessum sex fyrstu Evrópuleikjum sumarsins var því 19-2 eða sautján mörk í plús.

Sigur Víkinga var stærsti sigur íslensks félags í Evrópukeppni frá upphafi en liðið sló þarna met Breiðabliks og KR.

Blikar og KR-ingar höfðu náð að vinna sex marka sigur en ekkert íslenskt félagið hafði náð að vinna stærri en sex marka sigur fyrir kvöldið í Víkinni í gær.

KR setti fyrst metið með því að vinna 6-0 sigur á norður-írska félaginu Glenavon árið 2016 en Breiðablik jafnaði það með því að vinna 7-1 sigur á Tre Penne frá San Marinó árið 2023.

Félagsmet Víkinga var 5-0 sigur á UE S. Coloma frá Andorra í fyrra og 6-1 sigur á Levadia frá Eistlandi árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×