Innlent

Gosið lifir enn og mengun norður í landi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hér má sjá gosmóðuna hanga yfir Akureyri
Hér má sjá gosmóðuna hanga yfir Akureyri Axel Gunnarsson

Eldgosið sem hófst í gærnótt á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram en virknin hefur minnkað og er nú að mestu bundin við um tíu gíga. Hraun rennur áfram, einkum til austurs í átt að Fagradalsfjalli. Rennslið þykir þó að mestu innan fyrirsjáanlegra svæða.

Þetta kemur fram í uppfærslu á vef Veðurstofunnar.

Þar kemur fram að skjálftavirkni sé lítil og að óróinn fari minnkandi.

„Gögn úr aflögunarmælingum sýna engar markverðar breytingar frá því í gær. Þoka og lélegt skyggni hamla nú útsýni yfir gosstöðvarnar.“

Frá gosstöðvunum í gær.Vísir/Björn Steinbeck

Fram kemur að gasdreifing hafi verið víðtæk en að styrkur breinnisteinsdíoxíðs hafi einungis náð hættumörkum tímabundið á afmörkuðum svæðum, meðal annars á Akureyri.

Í dag er gert ráð fyrir suðaustanátt og því gæti gas borist til Reykjanesbæjar og nágrennis, en á morgun er spáð hægri norðanátt með mögulegri mengun í Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×