Innlent

Strand­veiðar færast yfir í innviðaráðuneytið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Málefni strandveiða og önnur byggðamál hafa færst úr atvinnuvegaráðuneyti Hönnu Katrínar Friðriksson yfir í innviðaráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar.
Málefni strandveiða og önnur byggðamál hafa færst úr atvinnuvegaráðuneyti Hönnu Katrínar Friðriksson yfir í innviðaráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að gera breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands þannig að byggðakerfið, sem felur meðal annars í sér strandveiðar og byggðakvóta, verður flutt frá atvinnuvegaráðuneytinu til innviðaráðuneytisins.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins en þar segir að breytingin hafi verið rædd og samþykkt á fundi ríkisstjórnar 16. júlí síðastliðinn. Forseti Íslands hefur undirritað úrskurðinn sem hefur þegar tekið gildi.

Málaflokkurinn færist þar með frá ráðuneyti Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra úr röðum Viðreisnar, yfir í ráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra úr röðum Flokks fólksins. 

Tryggðar strandveiðar allt sumarið hafa verið heitt helsta baráttumál Flokks fólksins og ætlaði ríkisstjórnin að stækka strandveiðipottinn í 48 daga. Það náðist þó ekki fyrir þinglok og horfa strandveiðimenn því fram á að strandveiðitímabilinu ljúki í þessari viku, á svipuðum tíma og síðustu ár.

„Með breytingunni flyst ábyrgð á stjórnarmálefninu byggðakerfi, eða svokölluðu 5,3% kerfi, úr atvinnuvegaráðuneyti og yfir í innviðaráðuneyti. Undir byggðakerfið fellur almennur byggðakvóti, sértækur byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun, skel- og rækjubætur og frístundaveiðar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×