Golf

Dani og Kín­verji leiða á Opna breska

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jacob Skov Olesen átti glimrandi dag.
Jacob Skov Olesen átti glimrandi dag. Andrew Redington/Getty Images

Daninn Jacob Skov Olesen og Kínverjinn Li Haotong leiða Opna breska meistaramótið í golfi um miðjan dag. Báðir hafa lokið fyrsta hring á fjórum undir pari vallar.

Bein útsending frá Opna mótinu stendur yfir á Sýn Sport 4 (rás 18 á myndlyklum Sýnar).

Olesen fór vel af stað í morgun en aðstæður voru eilítið þægilegri fyrir kylfinga þegar farið var af stað. Veðrið hefur versnað eftir því sem liðið hefur á. Eftir fjóra fugla og einn skolla á fyrstu ellefu holunum fékk hann örn á tólftu braut og fylgdi því eftir með fugli á þeirri fimmtándu með glæsilegri 20 metra vippu beint í holu.

Eilítil mistök á 18. holu þýddu annar skolli dagsins og lauk hann hringnum á fjórum undir pari.

Li Haodong spilaði einkar jafnan og góðan hring. Hann fékk par á öllum brautum nema fjórum. Og á þeim fjórum fékk hann fugl; fimmtu, sjöundu, tíundu og sautjándu braut. Þar af leiðandi deilir hann efsta sætinu með Olsen.

Annar Dani, Nicolai Höjgaard, er á tveimur undir pari eftir fyrsta hring, sem og Englendingurinn Lee Westwood. Reynsluboltinn Phil Mickelson er á höggi undir pari eftir að hafa náð þremur fuglum en fengið einnig tvo skolla á hringnum.

Englendingarnir Matthew Jordan (17 holur), Matt Fitzpatrick (14 holur) eru auk Taílendingsins Sadom Kaewkanjana (7 holur) í öðru sæti á þremur undir pari vallar þegar þetta er skrifað en eiga eftir að klára sinn hring.

Ríkjandi meistari Xander Schauffele er á pari eftir tólf holur líkt og þeir JJ Spaun og Jon Rahm sem eru með honum í holli.

Í hollinu á eftir þeim eru Írinn Shane Lowry, sem vann Opna mótið á sama velli 2019, og Scottie Scheffler, efsti maður heimslistans, en þeir eru báðir á höggi undir pari eftir ellefu holur.

Mikil eftirvænting er fyrir því að sjá heimamaninn Rory McIlroy sem hefur leik upp úr klukkan tvö í dag.

Annar heimamaður, Darren Clarke, átti líklega tilþrif dagsins þegar skot hans úr einkar djúpu grasi fór beint í holu á 17. braut líkt og sjá má að neðan.

Bein útsending frá Opna mótinu stendur yfir á Sýn Sport 4 og verður fram til klukkan 19:00 í kvöld. Sýnt verður frá mótinu alla daga þar til meistari verður krýndur á sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×