Fótbolti

Arsenal Tivat í tíu ára bann frá Evrópukeppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikurinn sem um ræðir var í Sambandsdeild Evrópu en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Leikurinn sem um ræðir var í Sambandsdeild Evrópu en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Robbie Jay Barratt

Knattspyrnusamband Evrópu hefur dæmt félag frá Svartfjallalandi í tíu ára bann frá Evrópukeppnum.

Félagið heitir FK Arsenal Tivat og bannið kemur eftir rannsókn UEFA á þátttöku félagsins í hagræðingu úrslita í leik í Sambansdeildinni. Félagið fær auk áratugarbanns fimm hundruð þúsund evru sekt sem gerir meira en 71 milljón króna sekt.

Leikmenn og starfsmenn félagsins fengu einnig bann og UEFA hefur biðlað til FIFA um að bann þeirra nái yfir allan knattspyrnuheiminn.

FK Arsenal Tivat má ekki spila í Evrópukeppni fyrr en í fyrsta lagi á 2035-36 tímabilinu.

Félagið var dæmt fyrir að hafa hagrætt úrslitum í einvígi á móti armenska félaginu Alashkert í júlí 2023.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum en armenska félagið vann seinni leikinn 6-1 á útivelli.

Nikola Celebic, leikmaður Arsenal Tivat, og starfsmaðurinn Ranko Krgovic fengu ævilangt bann frá fótbolta. Leikmennirnir Cetko Manojlovic, Dusan Puletic og Radule Zivkovic fengu allir tíu ára bann.

Arsenal Tivat hélt sæti sínu í efstu deild á síðustu leiktíð eftir sigur í umspili um að halda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×