Innlent

„Af hverju þetta brestur strax, það skiljum við ekki al­veg“

Agnar Már Másson skrifar
Kristín Jónsdóttir jarðfræðingur.
Kristín Jónsdóttir jarðfræðingur. Vísir

Fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands segir að stofnunin þurfi að fara vel yfir það hvers vegna eldgos hófst talsvert fyrr en Veðurstofan hafði gert ráð fyrir.

Í gær kom fram tilkynning frá Veðurstofunni þar sem sagði að líkur á gosi myndu aukast er liði á haustið. Hálfum sólarhring síðan ruddi kvika sér leið upp á yfirborð við Sundhnúksgígaröðina.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor segist sjálfur hafa tekið eftir því í síðasta mánuði að gögn bentu til þess að gos myndi líklegast hefjast milli um miðjan júní fram í um miðjan ágúst. „Og það stóðst nokkurn veginn,“ sagði hann í fréttatíma Sýnar í kvöld. 

Ummæli hans má heyra á tímanum 5.10 í spilaranum hér að neðan.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands, brást við þeirri gagnrýni þegar hún mætti í settið í kvöld.  Augljósleg þurfi að fara vel yfir það hvað hafi valdið misræminu. Veðurstofan hafi hámenntaða sérfræðinga sem vinni með mikil gögn. 

„Við vorum búin að setja frekar lágan þröskuld, um 25 milljón rúmmetra, það er eitthvað sem við höfum séð frá fyrri gosum,“ sagði Kristín.

Kortið sýnir sprunguna við Sundhnúksgígaröðina.Vísir

Veðurstofan hafi undirbúið sig fyrir langt óvissutímabil í haust.

„Svo gerist þetta. Af hverju þetta brestur strax, það skiljum við ekki alveg. Þannig að við þurfum augljóslega að fara betur yfir það.“

Hún segir að breytingar hafi orðið í síðasta atburði þegar kvikugangurinn undir Sundhnúksgígaröðinni teygði sig allverulega til norðurs.

„Augljóslega munu okkar sérfræðingar fara vel yfir þetta og vera tekið tillit til þessa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×