Tíska og hönnun

Ís­lensk há­tíska úr fiskileðri slær í gegn í Vogue

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Sigrún Björk Ólafsdóttir hönnuður vinnur með leðurmerkinu Nönnu Lín og hafa flíkurnar vakið mikla athygli.
Sigrún Björk Ólafsdóttir hönnuður vinnur með leðurmerkinu Nönnu Lín og hafa flíkurnar vakið mikla athygli. Facebook

Frakki úr íslensku fiskileðri fyrirtækisins Nanna Lín birtist í annað sinn í breska tískutímaritinu Vogue nú á dögunum. Er um að ræða samstarfsverkefni á milli Sigrúnar Bjarkar Ólafsdóttir og Nanna Lín teymisins sem virðist vekja athygli víða um tískuheiminn.

Frakkinn er hannaður og saumaður af Sigrúnu og var upprunalega frumsýndur á viðburðinum House of iKons í London í september síðastliðnum sem hluti af línunni RAW. Sigrún vinnur mikið með tískuljósmyndaranum Mariana MA sem tók þessar glæsilegu myndir sem birtust í tímaritinu.

Neðst í hægra horni má sjá umfjöllun Vogue um Sigrúnu og Nanna Lín.Aðsend

María Dís Ólafsdóttir og Leonard Jóhannsson stofnuðu Nanna Lín árið 2022 með það markmið að bjóða framleiðendum upp á slitsterkt og umhverfisvænt leður úr roði í metravís.

Í fréttatilkynningu segir:

„Með því að vinna með stærri fleti af leðri má auka hagkvæmni í framleiðslu og minnka sóun sem fylgir afklippum. Einnig getur Nanna Lín leyst plastblandaðan textíl af hólmi og spornað gegn hraðtísku.

Nanna Lín leðrið er frábrugðið öðru fiskileðri á þann hátt að það er endurmótað yfir í breiður áður en það er sútað, en þannig fæst fiskileður í metravís. Leðrið er úr laxaroði úr Landeldi í Öxarfirði. 

Roðið er fengið í gegnum veitingastaðin Rub23 og frá Hnýfil ehf á Akureyri. Því er um auka afurð að ræða. Leðrið er sútað með trjáberki, en slík sútun var algeng áður en ónáttúruleg efni komu til sögunnar. Framleiðsla á Nanna Lín er ekki hafin en vöruþróun miðar vel áfram.“

Sigrún Björk Ólafsdóttir hannar tískufatnað og búninga undir nafninu Sigrún Design og RockNRunes. 

„Sigrún hannar bæði hefðbundin nútíma föt en skemmtilegast finnst henni að gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn og hanna óhefðbundin föt og fær innblástur úr goðafræði, víkingaheimum og þjóðsögum.

Fleiri flíkur og fylgihlutir eru í bígerð hjá Sigrúnu sem fær þá skemmtilegu áskorun að vinna með leðurbútana, sem eru oft nokkuð ólíkir. En Nanna Lín teymið er stöðugt að þróa leðurgerðina og ýmsar útfærslur hafa orðið til. Það er því alveg ljóst að þið munið þá að sjá meira frá Sigrúnu og Nanna Lín á næstunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.