Fótbolti

Hetju­dáðir gegn Ís­landi tryggðu henni sæti í byrjunar­liðinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Signe Gaupset fagnar öðru marka sinna á móti Íslandi ásamt Elisabeth Terland.
Signe Gaupset fagnar öðru marka sinna á móti Íslandi ásamt Elisabeth Terland. Getty/Noemi Llamas

Hin tvítuga Signe Gaupset verður í byrjunarliði norska landsliðsins á móti Ítalíu í kvöld í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Sviss. Þetta er fyrsti leikur átta liða úrslitanna.

Gaupset kom ekkert við sögu í fyrsta leik norska liðsins á mótinu, en kom síðan inn á sem varamaður í hálfleik í öðrum leiknum á móti Finnlandi.

Hún fékk síðan tækifærið í byrjunarliðinu á móti Íslandi og nýtti það frábærlega.

Gaupset skoraði tvö fyrstu mörkin í fyrri hálfleiknum og lagði síðan upp hin tvö fyrir Fridu Maanum í þeim síðari.

Gaupset er leikmaður Brann en var aðeins búin að skora eitt mark í níu landsleikjum fyrir leikinn á móti Íslandi. Hún tryggði sig inn í hópinn með því að skora ellefu mörk í fyrstu fimmtán deildarleikjunum með Brann í sumar.

Verdens Gang segir að hetjudáðir Gaupset á móti Íslandi hafi tryggt henni sæti í byrjunarliðinu í kvöld.

Önnur sem greip tækifærið í Íslandsleiknum er Manchester United spilarinn Lisa Naalsund sem átti einnig góðan leik á móti Íslandi inn á miðjunni. Hún heldur sæti sínu í liðinu.

Framherjinn Ada Hegerberg kemur aftur inn í byrjunarliðið en hún var hvíld í Íslandsleiknum. Hegerberg leysir af Elisabeth Terland sem var fremst á móti Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×