Lífið

Þúsundir mót­mæla: Hætt við tón­listar­há­tíð þar sem Ye átti að koma fram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ye og eiginkona hans Bianca Censori á rauða dreglinum, rétt áður en hún fór úr yfirhöfninni og afhjúpaði beran kroppinn.
Ye og eiginkona hans Bianca Censori á rauða dreglinum, rétt áður en hún fór úr yfirhöfninni og afhjúpaði beran kroppinn. Getty/FilmMagic/Bauer-Griffin/Axelle

Hætt hefur verið við Rubicon-tónlistarhátíðina sem til stóð að halda í Bratislava í Slóvakíu þann 20. júlí næstkomandi. Þúsundir höfðu mótmælt fyrirhugaðri þátttöku tónlistarmannsins Kanye West.

Ye, eins og hann heitir nú formlega, hefur gengið fram af mörgum síðustu misseri með ýmsum uppátækjum. Hann þótti fara sérstaklega langt yfir strikið í vor, með útgáfu lagsins „Heil Hitler“.

Lagið endar á ræðu Adolf Hitler árið 1935, þar sem einræðisherrann og fjöldamorðinginn hvatti stuðningsmenn sína til að standa með sér líkt og hann hefði staðið með þeim.

Lagið var meðal annars bannað í Þýskalandi.

Þúsundir lýstu andstöðu sinni í kjölfar þess að tilkynnt var um þátttöku Ye í tónlistarhátíðinni og lögðu nafn sitt við yfirlýsingu þar sem sagði þátttöku tónlistarmannsins fela í sér óvirðingu við söguna, upphafningu ofbeldisverka og niðurlægingu fórnarlamba nasista.

Aðstandendur Rubicon hafa ekki sagt beinum orðum að hætt hafi verið við tónlistarhátíðina vegna mótmælanna en að þeir hafi sætt þrýstingi frá fjölmiðlum og þá hafi aðrir listamenn og samstarfsaðilar sagt sig frá verkefninu.

Þetta voru einu tónleikarnir sem tónlistarmaðurinn hafði bókað í Evrópu á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.