Innlent

Fanga­verðir á sjúkra­hús eftir hópárás fanga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sérsveitin var kölluð út að fangelsinu við Litla-Hraun í gærkvöldi.
Sérsveitin var kölluð út að fangelsinu við Litla-Hraun í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Sérsveit og lögregla var kölluð til þegar þrír fangar réðust á fangaverði á Litla-Hrauni. Fangaverðirnir voru fluttir á slysadeild en eru ekki alvarlega slasaðir. Málið er litið alvarlegum augum.

Veist var að fangavörðunum í gærkvöldi en málavextir eru ekki alveg ljósir. Árásarmennirnir voru þrír og allir fangar í fangelsinu. Hve margir fangaverðirnir voru sem slösuðust er heldur ekki ljóst.

Rannveig Þórisdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa ríkislögreglustjóra, staðfestir aðkomu sérsveitarinnar að málinu og Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, staðfesti málavexti.

Hinn síðarnefndi segir að lögreglu- og sérsveitarmenn sem kallaðir voru út yfirbuguðu fangana þrjá.

„Þetta er mögulega refsiverð háttsemi, mögulegt brot gegn valdstjórninni. Slíkt er alltaf skoðað og fer í farveg innan lögreglu,“ segir hann.

Hann segir engrar manneklu gæta á Litla-Hrauni en fréttastofu höfðu borist ábendingar um að sú væri staðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×