Fótbolti

Munda missir af lands­leik vegna út­skriftar úr Harvard

Sindri Sverrisson skrifar
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á að baki tuttugu A-landsleiki og gæti bætt þeim 21. við í fyrsta leiknum á endurbættum Laugardalsvelli.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir á að baki tuttugu A-landsleiki og gæti bætt þeim 21. við í fyrsta leiknum á endurbættum Laugardalsvelli. Vísir/Anton Brink

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, verður ekki með liðinu í leiknum mikilvæga við Noreg í Þjóðadeildinni á föstudaginn en ástæðan er mjög jákvæð.

Munda, sem verður 24 ára á mánudaginn, er nefnilega að útskrifast úr Harvard háskólanum í Bandaríkjunum á morgun. Þess vegna getur hún ekki verið með íslenska hópnum sem staddur er í Noregi og býr sig undir leik á Lerkendal leikvanginum í Þrándheimi á föstudagskvöld.

Munda kemur svo til móts við íslenska hópinn á Íslandi og verður klár í leikinn við Frakkland á þriðjudag, daginn eftir afmælið sitt.

Leikirnir tveir eru þeir síðustu í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar og ráða því hvort Ísland heldur sæti sínu í A-deild eða fellur í B-deild. Mikilvægt er að spila í A-deild á næstu leiktíð þegar spilað verður upp á sæti á næsta heimsmeistaramóti.

Áslaug Munda er uppalin á Egilsstöðum en hefur leikið með Breiðabliki á sumrin hér heima síðustu ár, á milli skólaára í Harvard þar sem hún fór í nám í taugavísindum.

Hún á að baki tuttugu A-landsleiki og gæti bætt þeim 21. við á þriðjudaginn í fyrsta landsleiknum á endurbættum Laugardalsvelli, þar sem nú er komið blandað gras.


Tengdar fréttir

Hætti að mæta í skólann eftir örlagaríkt rautt spjald

Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur leið ömurlega eftir að hafa fengið rautt spjald í leik Íslands og Portúgals í umspili um sæti á HM. Hún hætti að mæta í skólann og kenndi sjálfri sér um hvernig fór. Hún segir athyglina sem fylgir því að spila með landsliði geta tekið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×