Skoðun

Felu­leikur Þor­gerðar Katrínar

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fram kemur með skýrum hætti í yfirlýsingu sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, undirritaði í síðustu viku ásamt utanríkisráðherrum Noregs, Liechtenstein og Evrópusambandsins, að til standi að aðlaga stefnu ríkjanna þriggja í utanríkismálum að utanríkisstefnu sambandsins. 

Þar segir einfaldlega undir fyrirsögninni „Aðlögun að utanríkisstefnu Evrópusambandsins“ að ríkin þrjú, sem aðild eiga að Fríverzlunarsamtökum Evrópu (EFTA) og EES-samningnum, muni aðlaga sig að „ákvörðunum, yfirlýsingum og refsiaðgerðum“ sambandsins.

Formaður Viðreisnar hefur ítrekað hafnað því að undanförnu að til standi að taka upp utanríkisstefnu Evrópusambandsins eftir að vakin var athygli á málinu á Stjórnmálin.is fyrir helgi, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi, þrátt fyrir að það sé eðli málsins samkvæmt það sem felst í aðlögun að stefnu sambandsins í utanríkismálum sem aftur samræmist engan veginn sjálfstæðri utanríkisstefnu. Málið hefur í þrígang verið rætt á vettvangi þingsins að undanförnu þar sem meðal annars kom fram að utanríkismálanefnd Alþingis hefði ekki verið upplýst um þetta meginatriði yfirlýsingarinnar.

Hins vegar breytir auðvitað engu hvað Þorgerður Katrín segir þegar það samræmist ekki því sem hún hefur beinlínis skrifað undir. Annars vakti athygli í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í fyrradag hvernig Þorgerður gerði sér greinilega far um að ræða ekki ákvæði yfirlýsingarinnar, eða samkomulagsins eins og hún kallaði hana sem er vitanlega enn formlegri farvegur, um aðlögunina þrátt fyrir að sérstaklega væri spurt um það. Rétt eins og að ekkert var minnzt á aðlögunina í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytsins um yfirlýsinguna í síðustu viku. Feluleikur Þorgerðar leynir sér ekki.

Með öðrum orðum hyggst Þorgerður Katrín aðlaga Ísland að Evrópusambandinu í utanríkismálum undir því yfirskyni að þess þurfi vegna EES-samningsins, þrátt fyrir að engum slíkum skuldbindingum sé fyrir að fara í honum, áður en til stendur að greidd verði atkvæði um það í þjóðaratkvæði hvort stefna eigi að inngöngu í sambandið. Ef kröfu um slíkt er hins vegar fyrir að fara af hálfu Evrópusambandsins vegna EES-samningsins eiga íslenzk stjórnvöld vitanlega að standa í fæturna í þeim efnum. Þá er enn fremur um að ræða enn ein veigamiklu rökin fyrir því að endurskoða aðildina að honum.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×