Erlent

Hnekkti dómi fyrr­verandi kanslara fyrir mein­særi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sebastian Kurz sagði af sér embætti kanslara vegna spillingarmála árið 2021. Hann gæti nú mögulega átt afturkvæmt í austurrísk stjórnmál.
Sebastian Kurz sagði af sér embætti kanslara vegna spillingarmála árið 2021. Hann gæti nú mögulega átt afturkvæmt í austurrísk stjórnmál. AP/Heinz-Peter Bader

Áfrýjunardómstóll í Vínarborg sýknaði Sebastian Kurz, fyrrverandi kanslara Austurríkis, af ákæru um meinsæri og sneri þannig við dómi neðra dómstigs. Miklar vangaveltur eru um hvort að Kurz gæti nú átt afturkvæmt í austurrísk stjórnmál eftir að spillingarmál leiddi til afsagnar hans árið 2021.

Kurz var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundi fangelsi í fyrra fyrir að hafa borið ljúgvitni fyrir rannsóknarnefnd þingsins árið 2020. Rannsóknarnefndin rannsakaði ásakanir um spillingu í ríkisstjórn Kurz sem var sjálfur sakaður um að hafa notað opinbert fé til þess að kaupa sér hagstæða fjölmiðlaumfjöllun.

Dómnum yfir Kurz var snúið við í dag. Dómstóllinn staðfesti hins vegar dóm yfir skrifstofustjóra fyrrverandi kanslarans, að sögn austurríska ríkismiðilsins ORF.

Var vonarstjarna íhaldsmanna

Kurz leiddi Þjóðarflokkinn til sigurs í kosningum árið 2017 og 2019 og var aðeins 31 árs gamall þegar hann varð kanslari í fyrsta skipti. Hann var talinn helsta vonarstjarna íhaldsmanna í Evrópu, að sögn Evrópuútgáfu blaðsins Politico. Fallið var því hátt þegar hann sagði af sér í október 2021 í skugga raðar spillingarmála.

Niðurstaðan í dag er talin skipta sköpum fyrir pólitíska framtíð en mikið er rætt um hugsanlega endurkomu hans í stjórnmálin. Þjóðarflokkurinn leiðir nú þriggja flokka samsteypustjórn sem var mynduð til þess að halda jaðarhægriflokknum Frelsisflokknum frá völdum en hann vann stórsigur í kosningum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×